Verj­endur sak­borninganna fjögurra í Rauða­gerðis­málinu svo­kallaða, um morð Armando Beqirai, gerðu al­var­legar at­huga­semdir við greinar­gerð lög­reglu þar sem fjallað var um rann­sóknar­að­gerðir í málinu en um­rædd greinar­gerð var dag­sett þann 30. apríl 2021. Þá gagn­rýndi einnig dómari orða­lag í skýrslunni.

Lög­reglu­maðurinn sem skrifaði greinar­gerðina gaf skýrslu fyrir héraðs­dómi í dag en í máli hennar kom fram að spjótin hafi fljót­lega farið að beinast gegn Angjelin Sterka­j. Vísaði hún til þess að lítið hafi verið um sönnunar­gögn þar til skot­vopnið fannst en lög­reglu­menn hófu leit í Kolla­firði þann 9. mars.

„Lög­reglu­menn sem tóku skýrslu af [Shpetim Qerimi] fóru svona að átta sig á því að Shpetim hafi ekki áður sagt frá þessu stoppi þeirra Angjelin á leiðinni út ur bænum og fannst það svona á­huga­vert að þeir hafi stoppað við stein­vegg í Kolla­firði, þar sem á­letrunin er „Flatus lifir“,“ sagði hún meðal annars.

Þá sagði hún vini Armando hafa sagt fljót­lega eftir morðið að þeir teldu að Angjelin hafi verið að verki. „Vinirnir höfðu mjög sterkan grun strax á vett­vang i að Angjelin tengdist þessu,“ sagði lög­reglu­maðurinn við skýrslu­töku. Að­spurð nánar um málið frá verjanda Angjelin vísaði hún til þess að Vla­dimir Avramo­vic hafi meðal annars sagt það við lög­reglu á vett­vangi.

Skoðanir á því sem sakborningar voru að segja í skýrslunni

Verjandi Angjelin spurði því næst út í greina­gerðina, eða skýrsluna, um rann­sóknar­að­gerðirnar en hann sagði ýmis­legt á­huga­vert að finna í skýrslunni, til að mynda um sam­verknað og annað, þrátt fyrir að höfundurinn væri ekki lög­fræði­menntaður. Þá vísaði hann til þess að í skýrslunni segi að lög­regla trúi ekki sak­borningum og að þeir hljóti að vita eitt­hvað.

„Er venjan að skrifa svona skýrslu við rann­sókn máls á rann­sóknar­stigi?“ spurði verjandi Angjelin og svaraði lög­reglu­maðurinn því að um væri að ræða greina­gerð lög­reglu, saman­tekt á málinu með því sem lög­regla telur að hafa gerst. Verjandi benti þó á að í skýrslunni væri að finna ýmsar á­lyktanir og því ekki hægt að segja að að­eins hafi verið um saman­tekt að ræða.

„Sumt af þessu er skoðun á því hvað sak­borningarnir eru að segja, hvort það sé rétt eða rangt,“ sagði verjandi Angjelin. „Þetta er mat lög­reglu að við teljum að svona hafi þetta verið, þannig við drögum þá á­lyktun,“ svaraði lögrelgu­maðurinn.

Tóku ekki mið af framburði sakborninga

Því næst tók verjandi Murat Sel­virada til máls og benti á að í skýrslunni væri að finna á­lyktun um að Murat hafi sýnt Claudiu Sofiu Coel­ho Car­va­hlo, unnustu Angjelin, bíla­stæði við Brautar­holt þar sem hann hafi sagt henni hvaða bíl hún ætti að fylgjast með. Þá hafi hann sagt henni að senda Angjelin skila­boðin „Hey sexy“ í síma Shpetim ef bíllinn myndi hreyfast.

Verjandinn benti á að við skýrslu­töku hjá lög­reglu þann 23. mars hafi Claudia leið­rétt fram­burð sinn um að fyrir­mælin um skila­boðin hafi komið frá Murat, hið rétta væri að þau hafi komið frá Angjelin sjálfum. Þrátt fyrir að skýrslan hafi verið dag­sett 30. apríl hafi ekki verið minnst á leið­réttinguna frá því í mars.

„Vissir þú af þessum fram­burði Claudiu og á­kvaðst að taka ekki mark á honum?“ spurði verjandi Murat. Löng bið var á máli lög­reglu­mannsins sem sagðist síðan ekki vera með neitt svar. Þá vísaði verjandinn til þess að þann 20. mars hafi Angjelin sjálfur sagst hafa beðið Claudiu um að senda sér um­rædd skila­boð, ekki Murat.

Dómarinn í málinu endur­tók spurninguna eftir beiðni lög­reglu­mannsins og hvort það hafi komið til greina að taka mið af fram­burði þeirra Claudiu og Angjelin. Aftur sagðist lög­reglu­maðurinn ekki vera með neitt svar. „Er bara í boði að svara ekki spurningum?“ spurði þá verjandi Angjelin

„Er það alveg venju­legt að lög­regla láti kafla inn í svona skýrslu sem heitir bara kenningar lög­reglu og niður­lag ... Þetta kom fram í skýrslu lög­reglu sem er saman­tekt á rann­sóknar­að­gerðum, er þetta venju­legt?“ spurð verjandi Murat. „Það er venju­legt að skrifa greinar­gerð í lok máls,“ svaraði þá lög­reglu­maðurinn.

Fullyrt að menn hafi gerst sekir um manndráp

Verjandi Claudiu tók næst til máls. „Í þessari greinar­gerð, sem ég kalla mál­flutning, stendur við niður­lag lög­reglu að Claudia hefði mátt gera sér grein fyrir að eitt­hvað stæði til þetta kvöld og því bæri að á­kæra hana. Telur lög­regla þetta sönnun þess að ein­hver hafi gerst sekur um mann­dráp?“ spurði verjandinn.

Við þetta greip dómarinn inn í og vísaði til þess að mikið hafi verið talað um ann­marka á skýrslunni.

„Hún segir að þetta séu til­gátur og kenningar lög­reglu, það er nú bara mjög víða í þessu full­yrt eins og þetta séu stað­reyndir, að hitt og þetta hafi gerst, gerir ekki greinar­mun hve­nær sagt er áður en að setning hefst, talið er, er í lagi að segja bara svona og leggja fyrir dóm að þetta og hitt hafi gerst, sem er full­kom­lega ó­satt, að mati lög­reglu?“ spurð verjandi Claudiu á­fram.

Kvaðst lög­reglu­maðurinn þá hafa dottið út og spurði verjandinn aftur hvort það væri í lagi að lög­regla full­yrði um að menn hafi gerst sekir um mann­dráp áður en málið hefur farið til dóm­stóla. Sagði hún það vera mat þeirra sem stóðu að málinu. Að­spurð um hluta þar sem segir að sak­borningarnir „hafi öll haft sínu hlut­verki að gegna í mann­drápinu,“ sagði hún það einnig vera mat lög­reglu.

Litið framhjá framburði og fabúlerað um annað

Eftir inn­skot frá vara­héraðs­sak­sóknara spurði dómarinn hvaða laga­grund­velli skýrslan byggi á og sagði úti­lokað að farið hafi verið eftir þeim lögum við gerð skýrslunnar. Um var að ræða 56. grein laga um með­ferð saka­mála.

„Nú stendur hérna neðar­lega á blað­síðu 67: Kenning lög­reglu óháð fram­burði sak­borninga er þessi... Grund­vallar­at­riði er náttúru­lega fram­burður sak­borninga og ef að þetta á að vera með 56. gein að segja, það er bara litið fram hjá fram­burði sak­borninga og fabúlerað eitt­hvað allt annað upp úr gögnunum,“ sagði dómarinn.

„Það alla vega leikur veru­legur vafi á því þarna hvort lög­regla hafi gegnt hlut­leysis­skyldu sinni.“