Bandaríska móðirin Alice Bender hefur verið harðlega gagnrýnd í kjölfar þess að hún birti myndbönd á TikTok þar sem hún sagðist meðal annars vera andsnúin því að setja börnum háttatíma og sagði barnarúm í raun vera „barnafangelsi.“
Bender á fimm mánaða gamlan son sem heitir Fern. Í myndböndum sínum, sem fengið hafa meira en 7,6 milljónir áhorfa, útskýrir hún meðal annars hvers vegna hún lætur son sinn ekki sofa í barnarúmi með rimlum.
„Ef þið horfið á týpísk bandarísk barnaherbergi, takið þá eftir því hvernig það er hannað með hagsmuni foreldranna í huga, en ekki barnsins,“ segir hún meðal annars. „Listin er venjulega hátt uppi þar sem börnin sjá hana ekki einu sinni.“
Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur, sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að stórhætta felist í því að börn sofi í rúmum fullorðinna. Svefnumhverfi barna sé háð tískusveiflum sem geti verið þvert á ráðleggingar um öryggi. Engin staðfesting sé til á því að svonefnd ungbarnahreiður veiti öryggi. Foreldrar geti óvart lagst yfir barnið.

„Við kaupum bókstaflega þessi litlu barnafangelsisklefa svo við getum bara skilið börnin okkar eftir og labbað í burtu,“ segir bandaríska móðirin. „Ég er ekki með barnarúm því ég mun aldrei neyða börnin mín til að hafa háttatíma,“ segir hún ennfremur og heldur áfram.
„Börn eru líka fólk og að neyða einhvern til að sofa þegar þau eru ekki þreytt er ómannúðlegt. Ímyndið ykkur ef ástmögur ykkar myndi læsa ykkur í hirslu sem þið gætuð ekki komist út úr og myndi segja ykkur að fara að sofa jafnvel þó þið væruð ekki þreytt.“
Hún segir að slíkt væru misnotkun, allir myndu yfirgefa elskhuga sinn í þeim soprum. „Börn eiga skilið yfirráðarétt yfir eigin líkama rétt eins og við og þetta á um svefn.“
Myndbandið þar sem hún útskýrir mál sitt hefur verið deilt þúsundum sinnum á TikTok og Twitter. Þar skiptist fólk í tvær fylkingar, eru ýmist gáttaðir á Bender eða hrósa henni. „Þetta er skelfilegt,“ skrifar ein kona um málið.
„Börn hafa ekki þroskað með sér átómatíska sjálfsstjórn til þess að átta sig á því að þau séu þreytt. Fullorðnir þurfa að hjálpa börnunum að læra að sjá um sig með því að búa til aðstæður sem gerir þeim kleyft að sofa.“

