Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 25. nóvember 2022
22.45 GMT

Aron Can Gultekin var aðeins sextán ára þegar hann gaf út sína fyrstu plötu árið 2016, ári síðar var hann vinsælasti íslenski tónlistarmaðurinn á Spotify.

„Ég er búinn að vera ótrúlega lengi í þessu þó að ég sé svona ungur,“ segir Aron Can, sem er nýorðinn 23 ára. „Ég hafði alltaf mikinn áhuga á tónlist þegar ég var lítill en það hefði enginn giskað á að ég yrði tónlistarmaður,“ segi hann.

„Það er eiginlega fyndið hvað ég er búinn að vera lengi í þessu en ég tók upp fyrsta lagið mitt þegar ég var þrettán ára gamall og gaf það út á Youtube, var bara að leika mér eitthvað. Svo gaf ég út meira þegar ég var fjórtán og enn meira þegar ég var fimmtán en svo eyddi ég þessu öllu út aðeins seinna,“ segir Aron.


„Það er eiginlega fyndið hvað ég er búinn að vera lengi í þessu en ég tók upp fyrsta lagið mitt þegar ég var þrettán ára gamall.“


Hann segir að árið 2016 hafi hann kynnst pródúserunum Jóni Bjarna Þórðarsyni og Aroni Rafni Gissurarsyni, þá hafi allt breyst og hann hafi fundið sitt „sound“.

„Þeir eru geggjaðir og þegar ég hitti þá, þá small bara allt saman,“ segir Aron.

„Þarna var ég allt í einu kominn í alvöru stúdíó, fjólublá led-ljós í loftinu og bara alvöru stemning. Þarna prófa ég „auto tune“ í fyrsta skiptið og þarna fæðist þetta sound. Þessi fyrsta plata varð til á einum og hálfum mánuði,“ segir Aron.

Aroni skaut hratt upp á stjörnuhimininn ungum að árum. Hann segir rútínu mikilvæga fyrir sig til að halda sér á jörðinni. Aron vaknar klukkan fimm á hverjum morgni og er mættur í ræktina klukkan sex.
Fréttablaðið/Eyþór

Allt gerðist hratt

Um leið og fyrsta platan kom út fóru hlutirnir að gerast hratt hjá Aroni og hann varð á meðal vinsælustu tónlistarmanna landsins. Hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2017 fyrir rappplötu ársins, rapplag ársins og sem bjartasta vonin. Sama ár vann lagið Silfurskotta með Emmsjé Gauta verðlaun sem lag ársins í flokki rapp- og hipphopp-tónlistar en Aron syngur með Gauta í því lagi.

„Það var bara geggjað hvað þetta gerðist allt hratt og fólk var greinilega tilbúið í þetta nýja sound sem ég var að gera,“ segir Aron. „Ég hafði verið að hlusta mikið á íslenskt hipphopp en ég var líka að hlusta mikið á erlenda tónlist. Byrjaði að hlusta á tyrkneskt rapp en hlustaði til dæmis líka mikið á Drake og The Weeknd og það veitti mér mikinn innblástur sem heyrist alveg í minni tónlist,“ segir hann.

Aron segir að þrátt fyrir að hann hafi verið ungur þegar hann byrjaði í tónlistarbransanum hafi honum verið tekið ótrúlega vel af kollegum sínum. „Ég var bara unglingur en þeir tóku mér opnum örmum. Gauti (Emmsjé Gauti) tók mig mikið að sér og veitti mér svo mikla leiðsögn og gaf mér ráð. Það er enn þannig í dag að ég veit alltaf að ég get hringt í hann ef mig vantar ráð,“ segir hann.

Aron minnist þess þegar hann keppti í Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins sem haldin er af Samfés. „Þá var Emmsjé Gauti kynnir. Þetta er svo klikkað af því að hann var idolið mitt og svo þremur árum seinna er ég bara mættur í stúdíó með honum. Svo hef ég hitt og unnið með svo mörgum af þessum fyrirmyndum mínum og er orðinn einn af þeim.“


„Þetta er svo klikkað af því að hann var idolið mitt og svo þremur árum seinna er ég bara mættur í stúdíó með honum.“


Hvernig fannst þér að vera allt í einu orðinn einn af þeim?

„Það var og er bara geggjað,“ segir Aron. „Ég hef sjúklega gaman af þessu og tónlist hefur alltaf verið mitt áhugamál númer eitt og núna fæ ég að vinna við það, sem er sturlað,“ bætir hann við.

„Núna veit ég líka hvað ég geri þegar það kemur nýr ég, einhver ungur og efnilegur, þá mun ég taka á móti honum með kærleika og ást alveg eins og var gert við mig, það skiptir svo miklu máli.“

„Ég hef sjúklega gaman af þessu og tónlist hefur alltaf verið mitt áhugamál númer eitt og núna fæ ég að vinna við það, sem er sturlað,“ segir Aron.
Fréttablaðið/Eyþór

Spenntur að verða pabbi

Aron Can er alinn upp í Grafarvogi og segist elska hverfið. „Svo mikið að hérna keypti ég mína fyrstu íbúð og hér ætlum við fjölskyldan að búa, verðum í geggjuðum málum með litla barnið,“ segir Aron en hann og kærastan hans, Erna María Björnsdóttir, eiga von á sínu fyrsta barni í mars.

„Ég get ekki beðið, er ekkert eðlilega spenntur,“ segir Aron. „Ég veit ekkert hvað ég er að fara út í og segi það í lagi sem ég skrifaði í síðustu viku: Ég veit ekkert hvernig ég ætla að ala þig upp en það kemur í ljós, ég elska ekkert meira en son minn og hann er ekki kominn,“ segir hann.

„Ég veit bara að hann mun fá alla þá ást sem hann á skilið. Frá mér og mömmu sinni, öllum vinum okkar og fjölskyldu, við eigum bæði gott bakland og ég er bara ótrúlega ánægður með það hvernig lífið er að þróast. Er þakklátur fyrir lífið og fagna öllu þessu nýja.“

Aldrei verið hamingjusamari

Aron og Erna María eru búin að vera saman í sex ár og segist hann aldrei hafa verið hamingjusamari. „Ég er að springa úr gleði.“ Spurður að því hvernig þau Erna María hafi kynnst segir Aron þau tæknilega séð hafa þekkst síðan hann var lítill.

„Hún og Talía systir mín voru bestu vinkonur. Þær eru fjórum árum eldri en ég og voru saman í bekk þannig að þegar ég kynnist henni er ég bara litli krúttlegi bróðir hennar Talíu, en svo missa þær samband og ég hitti hana ekki í mörg ár,“ segir Aron.

„Svo þegar ég er sextán ára þá var ég á leiðinni til Keflavíkur með vini mínum að sækja upptökuvél sem við notuðum við tónlistarmyndbandið við Enginn mórall. Hann spyr mig hvort mér sé ekki sama þó að vinkona hans komi með og ég segi auðvitað bara já,“ segir hann.

„Þá er það bara Erna María sem ég hef ekki séð í mörg ár og þarna kynnumst við upp á nýtt og á allt öðruvísi hátt. Þarna er ég ekki lengur litli krúttlegi bróðirinn og við lendum einhvern veginn saman í vinahópi, þekkjum sama fólkið og svo erum við bara byrjuð saman svona hálfu ári seinna,“ segir Aron sem ljómar þegar hann talar um Ernu Maríu.

Og hvernig brást systir þín við?

„Henni fannst þetta kannski pínu pirrandi fyrst en svo var þetta bara geggjað og þær aftur orðnar bestu vinkonur.“

Aron Can er tyrkneskur í föðurætt og á stóra fjölskyldu í Tyrklandi. Hann segir hjartað slá jafnt fyrir Ísland og Tyrkland og er þakklátur fyrir að kunna tungumál þjóðanna beggja.
Fréttablaðið/Eyþór

Tyrkland í hjartanu

Aron hefur alla tíð búið á Íslandi en pabbi hans er frá Tyrklandi, hann talar tyrknesku og segir hjartað slá jafnt fyrir Ísland og Tyrkland. „Mamma mín fór í skiptinám til Tyrklands og þar kynntist hún pabba. Hann átti plötubúð og þar kynnast þau, á Bağdat Caddesi sem er svona gata eins og Laugavegurinn í Istanbúl,“ segir Aron.

„Þau bjuggu í Tyrklandi í nokkur ár, mamma, pabbi og systir mín, svo fluttu þau hingað og ég kom í heiminn og við höfum alltaf búið hér en verið mjög dugleg að fara og heimsækja ömmu og afa og frænkur og frændur, ég á risastóra fjölskyldu í Tyrklandi,“ segir hann og bætir við að það sé orðið alltof langt síðan hann hafi farið í heimsókn.

„Það er bara eitthvað svo geggjað að hugsa til þess að maður eigi heila fjölskyldu þarna og ég elska að vera þarna, borða matinn hennar ömmu og svona, það er bara geggjað.“


„Það er bara eitthvað svo geggjað að hugsa til þess að maður eigi heila fjölskyldu þarna og ég elska að vera þarna, borða matinn hennar ömmu og svona, það er bara geggjað.“


Aron segist mjög þakklátur fyrir að foreldrar hans hafi kennt honum tyrknesku og að hann hafi haldið henni við. „Maður græðir alltaf á því að tala fleiri en eitt tungumál. Ég tala reglulega við ömmu og afa í símann á tyrknesku og svo tölum við pabbi eiginlega okkar eigið tungumál. Hann kannski segir eitthvað á tyrknesku og ég svara á íslensku og þetta blandast allt saman,“ segir hann.

Spurður að því hvort hann hafi fundið fyrir einhvers konar fordómum vegna uppruna síns í gegnum tíðina segir Aron svo vera en ekki á neikvæðan hátt. „Ég man ekki eftir neinu neikvæðu varðandi það sem betur fer. Mér fannst alltaf bara geggjað að vera aðeins brúnni en hinir og að kunna tvö tungumál.“

Aron er þakklátur foreldrum sínum fyrir að hafa kennt honum bæði tyrknesku og íslensku.
Fréttablaðið/Eyþór

Stefnir enn hærra

Um síðustu helgi hélt Aron Can tónleika í Hörpu, þangað mættu 1.300 manns. Hann segir það hafa verið ótrúlega tilfinningu að sjá fullan sal af fólki sem allt var komið til að berja hann augum. „Þetta var tryllt,“ segir hann.

„Mig hefur svo lengi langað að gera þetta, hef hugsað um þetta í mörg ár, svo ég setti standardinn mjög hátt og vildi hafa þetta eins flott og ég gat,“ segir Aron.

„Það er sturluð tilfinning að standa uppi á sviði og heyra þrett­án hundruð manns syngja lögin þín. Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir hann.

1.300 manns mættu á tónleika Arons Can í Hörpu um síðustu helgi. Hann segist aldrei hafa skemmt sér jafn vel.
Mynd/Aðsend

„Ég bara trúði því ekki þegar það seldist í alvörunni upp, ég hugsaði bara með mér: Hvað er að gerast? Hvar er ég núna? Þetta var svo súrrealískt. Að þrettán hundruð manns séu til í að borga peninga til þess að koma og hlusta á mig á tónleikum í tvo klukkutíma er ótrúlegur sigur og ég er fullur þakklætis.“

Þrátt fyrir mikla velgengni virðist Aron ná að halda báðum fótum á jörðinni og láta frægðina ekki stíga sér til höfuðs. „Ég hef bara alltaf verið frekar slakur gaur,“ segir hann.

„Held bara áfram að gera það sem ég er að gera og er mjög ýktur í því,“ segir Aron sem vaknar klukkan fimm á hverjum morgni og er kominn í ræktina klukkan sex. „Og svo er ég vanalega kominn upp í rúm fyrir tíu á kvöldin. Þetta er ekki þessi týpíski rokkstjörnulífsstíll en þetta er það sem hentar mér og svona get ég verið með marga bolta á lofti í einu.“

Aron og Erna María hafa verið saman í sex ár og eru samheldið par. Þau eru afar spennt fyrir foreldrahlutverkinu.
Mynd/Aðsend

En hvað er fram undan?

„Það er auðvitað föðurhlutverkið og svo var ég að opna veitingastað,“ segir Aron en hann opnaði nýlega veitingastaðinn Stund ásamt Ernu Maríu, Aroni Má Ólafssyni (Aroni Mola) og Hildi Skúladóttur.

„Mig hefur alltaf langað að fara í einhvern „business“ svo við stukkum á þetta þegar tækifærið gafst. Þetta er bæði gaman en svo er mikilvægt að hafa eitthvað svona til hliðar við tónlistina, eitthvað áreiðanlegra,“ segir Aron. „Ég get ekki treyst á það að ég hafi alltaf nóg að gera eða að fólk vilji endalaust hlusta á mig en ég reyni að passa vel upp á peningana mína og vera skynsamur.“

Spurður hvort hann sjái fyrir sér tónlistarframa erlendis segist Aron vera að vinna í því. „Ég er búinn að halda tvenna tónleika í Osló, tvenna í Bergen og eina í Danmörku og mig langar mikið að taka þessa tónleika sem ég var með í Hörpu og fara með þá út,“ segir hann.

„Mér var tekið mjög vel, sérstaklega í Noregi, en þar er senan mjög stór svo núna er ég að vinna í því að stækka. Ég elska að vera tónlistarmaður á Íslandi en tækifærin eru takmörkuð út af smæðinni svo ég stefni bara enn hærra,“ segir Aron.

Athugasemdir