Heimildir bandarískra fjölmiðla herma að auðkyfingurinn Jeffrey Epstein, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í rúman mánuð, vegna gruns um að hafa haft fjölda ungra kvenna í kynlífsþræklun um árabil, hafi stytt sér aldur í fangaklefa sínum í fangelsi á Manhattan. Réttarlæknir í New York borg hefur staðfest andlát hans. Hann var 66 ára gamall.

Fyrir örfáum dögum kom fangavörður að Epstein meðvitundarlausum í fangaklefa sínum með áverka á hálsi og var hann í kjölfarið settur á sérstaka sjálfsvígsvakt í fangelsinu.

Í gær var leynd aflétt af gögnum um brot Epsteins gegn ungum konum á heimili hans í Palm Beach og í New York á árunum 2002 til 2005.

Epstein á marga valdamikla vini og grunur leikur á um að hann hafi veitt mörgum þeirra aðgang að stúlkum sem hann hélt í kynlífsánauð. Donald Trump Bandaríkjaforseti og Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna voru meðal valdamestu vina hans.

Epstein þykir hafa sloppið ótrúlega vel frá fyrri brotum sínum gegn stúlkum undir lögaldri. Á grundvelli samnings við Alexander Acosta, þáverandi saksóknara játaði Epstein minna brot og fékk vægari dóm upp á 13 mánaða fangelsi. Á grundvelli samningsins fékk Epstein að fara til skrifstofu sinnar á hverjum degi meðan á afplánun stóð.

Acosta sagði nýverið af sér embætti atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Trumps, en samkvæmt úrskurði dómara í Flórídafylki braut samningur hans við Epstein gegn rétti brotaþola hans vegna þess að þeim var ekki sagt frá því að málið hefði verið leyst utan dómstóla.