Dreifing á nektar­myndum og barna­níðs­efni hefur færst í aukanna síðast­liðin á árum og segir lög­regla rann­sóknir sýna að eitt af hverjum fimm börnum sendi nektar­myndir af sjálfum sér. „Af­leiðingar svona brota hafa í flestum til­vikum einungis haft al­var­legar af­leiðingar fyrir þol­endur, ekki ger­endur,“ segir lög­fræðingurinn María Rún Bjarnar­dóttir, höfundur nýs frum­varps um kyn­ferðis­lega frið­helgi.

Engar greinar í hegningar­lögum séu til þess fallnar að ná utan um staf­ræn kyn­ferðis­brot og barna­níð og blasa gapandi glufur milli á­kvæða um há­marks­refsingu fyrir slík brot. Þegar kemur að því að sækja ein­stak­linga til saka fyrir brot af þessu tagi falli mörg mál milli stafs og bryggju og ör­fáir eru sóttir til saka.

Fá­rán­legur munur

Lögin hafi hingað til ekki fjallað sér­stak­lega um staf­rænt kyn­ferðis­of­beldi en stuðst hafi verið við greinar um blygðunar­semi og barna­níð þess í stað. Mikið er á­bóta­vant í þeim á­kvæðum sem beri þess merki að vera frá 19. öld að mati Maríu. „Allir sem að eru eitt­hvað búnir að pæla í þessu sjá að þetta er alveg gapandi.“

Í á­kvæði 209. greinar hegningar­laga kemur fram að há­marks­refsing fyrir brot gegn blygðunar­semi séu fjögurra ára fangelsis­vist. Há­marks­refsing fyrir að afla sér eða hafa í vörslu sinni efni sem sýnir börn á kyn­ferðis­legan hátt er hins vegar helmingi lægri.

„Munurinn á refsi­ramma í þessum á­kvæðum stenst enga skoðun og er bein­línis fá­rán­legur,“ segir María. „Þetta kemur til vegna þess að árið 2007 var kyn­ferðis­af­brota­kaflinn endur­skoðaður en bara sá hluti kaflans sem snýr að brotum gegn ein­stak­lingum.“ Á­kvæði um blygðunar­semi er hins vegar flokkað með brot gegn al­menningi frekar en ein­stak­lingi.

Að senda mynd af kynfærum sínum á netinu fellur undir ákvæði í hegningarlögum sem var samið um flassara.
Fréttablaðið/Getty

Lögin skrifuð í kringum flassara

„Þar var helst verið að huga að því að sækja karla sem voru að opna frakkana sína úti á götu til saka,“ segir María. „Orða­lagið í þessum laga­á­kvæðum er líka svo gallað. Það er talað um að særa fólk með „losta­fullu at­hæfi“ sem er náttúru­lega úr öllum takti við nú­tímann.“

Til að dæmi sé tekið segir María að ó­um­beðin typpa­mynd gæti fallið undir blygðunar­semis­brot en séu myndirnar sendar í­trekað sé hægt að túlka það sem kyn­ferðis­lega á­reitni. „Það þýðir að refsi­ramminn lækkar með auknum fjölda mynda, þar sem blygðunar­semis­brotið er að há­marki fjögur ár en kyn­ferðis­leg á­reitni er bara tvö ár.“

Stuðst við lög síðan á ní­tjándu öld

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra mældi fyrir frum­varpi Maríu í síðustu viku og er það nú til með­ferðar hjá þinginu. Þar er meðal annars lagt til að breyta á­kvæðinu um blygðunar­semi og lostugt at­hæfi.

Á­kvæðið ber þess merki að hafa ekki verið efnis­lega endur­skoðuð síðan Ís­land fékk sín fyrstu hegningar­lög árið 1869 að mati Maríu. Nú­verandi hegningar­lög Ís­lands eru frá árinu 1940 en í greinar­gerð frá því ári kemur fram að um­rætt á­kveði sé hið sama.

„Á­kvæðið fjallar um brot sem fyrst og fremst eiga sér stað á netinu en er efnis­lega frá 19. öld,“ segir María. Lög­gjöfin eins og hún er nái því mjög illa um staf­ræn brot og á­reiti á netinu. „Þetta er ein af á­stæðum þess að það er nauð­syn­legt að stíga inn í þessi mál.“

„Á­kvæðið fjallar um brot sem fyrst og fremst eiga sér stað á netinu en er efnis­lega frá 19. öld.“

Refsingar breyti ekki við­horfinu

Sam­kvæmt nýja frum­varpinu getur sá sem dreifir nektar­myndum eða mynd­böndum af öðrum í leyfis­leysi átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi sé það gert af á­setningi.

Miðað við frum­varpið er ekki að­eins sá sem upp­haf­lega dreifði mynd eða efni á­byrgur heldur einnig aðrir sem kunna að dreifa því á­fram. Geta því margir ó­skyldir aðilar verið brot­legir gagn­vart sömu mann­eskju. Á­setningurinn skiptir líka miklu máli, það er hvort við­komandi dreifi efni vís­vitandi til á­kveðinna aðila til að valda skaða.

„Refsingarnar eru í dag annað­hvort bara fangelsi eða bætur og svo þegar það eru ungir krakkar er hægt að nota sátta­miðlun. Það eru engin önnur úr­ræði og vantar svig­rúm í refsikafla laganna,“ segir María. Í lögunum sé kyn­ferðis­brotum raðað eftir al­var­leika þar sem nauðgun er efst og blygðunar­semis­brot neðst. „Þegar vísað er til neðriskalans er að finna fjöl­mörg brot sem hafa gríðar­lega lang­varandi og þung­bærar af­leiðingar líkt og gerist með dreifingu á nektar­myndum.“

Flestir þeirra sem fá dóm fyrir staf­rænt kyn­ferðis­brot eru dæmdir í þrjá­tíu daga skil­orðs­bundið fangelsi og til að greiða miska­bætur í kringum 250 þúsund krónur að sögn Maríu. „Ég er sann­færð um að slík refsing sé ekki til þess fallin til að breyta við­horfi til þessara brota.“ Það ættu að vera virkari úr­ræði í boði. Það sé þó ekki hægt að bjóða upp á neitt slíkt nema hegningar­lögin séu endur­skoðuð í heild sinni.

Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, höfundur frum­varps um barna­níð, segir að ekki megi vanmeta tengsl milli áhorfs á barnaníðsefni og brot gegn börnum.
Fréttablaðið/Ernir

Haldist í hendur við frum­varp um barna­níð

María segir mikil­vægt að frum­varpið um kyn­ferðis­lega frið­helgi sé af­greitt sam­hliða frum­varpi um barna­níðs­efni svo ekki myndist gloppur milli á­kvæða. „Það er al­ger­lega hætta á því að þarna myndist holur líkt og er að finna í nú­verandi hegningar­lögum,“ segir María.

Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, höfundur frum­varps um barna­níð, tekur í sama streng og vonast til að horft sé á tengslin milli þessara á­kvæða. „Ég held að það væri mála­flokknum og brota­þolum í þessum mála­flokki mjög til góða ef þessi tvö mál yrðu af­greidd saman og yrðu að lögum á sama tíma.“

Þor­björg mældi í síðustu viku fyrir frum­varpi sínu þar sem lagt er til að há­marks­refsing fyrir að dreifa barna­níðs­efni verði hækkuð úr tveggja ára fangelsi í sex ár fyrir stór­felld brot. „Þetta á­kvæði situr dá­lítið eftir og það er eins og það vanti sam­ræmi í það með hvaða augum þessi brot eru litin.“ Hún bendir á að refsi­rammi Norður­landanna sé mun þyngri en hér­lendis og rími við hennar til­lögur um há­marks­refsingu.

Dökka hlið tækni­þróunarinnar

„Það hafa orðið breytingar á þessum brotum á síðustu árum og þau hafa færst tölu­vert í aukanna,“ segir Þor­björg. Það sé ein af dökku hliðum tækni­þróunarinnar. Auð­veldara sé að nálgast ó­grynni af ó­lög­legu efni og óska eftir til­teknum brotum á þess gerðum spjall­síðum.

„Það sem mér finnst stundum gleymast er að þegar barna­níðs­efni finnst í tölvu hjá mann­eskju þá er verið að fremja brot á því barni sem er í mynd­efninu. Það er síðan við­bótar­brot að þetta efni fær gígantíska út­breiðslu á netinu.“ Brotið verði iðu­lega skipti- eða sölu­vara milli manna.

„Það sem mér finnst stundum gleymast er að þegar barna­níðs­efni finnst í tölvu hjá mann­eskju þá er verið að fremja brot á því barni sem er í mynd­efninu."

Tengsl milli á­horfs og af­brota

„Þriðji punkturinn er síðan sá að það er þekkt að svona efni finnist í fórum þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir að mis­nota barn kyn­ferðis­lega.“ Ekki megi van­meta tengslin á milli þess að horfa á slíkt efni og að brjóta gegn börnum.

„Maður heyrir stundum talað um að menn sem horfa á barna­níðs­efni myndu sjálfir aldrei brjóta gegn barni. Það er ekki endi­lega alltaf satt og þó að það gerist ekki í hundrað prósentum til­vika eru tengsl þarna á milli.“ Þetta sjáist skýrast þegar kyn­ferðis­brot gegn börnum séu pöntuð af netinu.

Frum­varp Þor­bjargar er nú til um­ræðu á Al­þingi og kveðst hún vera bjart­sýn um að það geti orðið að lögum. „Ég hafði sam­band við þing­menn um stuðning og það eru með­flutnings­menn á þessu máli í öllum flokkum. Ég er hins vegar þing­maður í minni­hluta og því miður er það þannig að þeim málum vegnar ekki alltaf jafn vel og stjórnar­málunum.“

Ofan­greint efni er hluti af frétta­skýringu um staf­rænt kyn­ferðis­of­beldi og barna­níð.

Nú­verandi hegningar­lög

  • [209. gr.] Hver sem með lostugu at­hæfi særir blygðunar­semi manna eða er til opin­bers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en [fangelsi allt að 6 mánuðum] 1) eða sektum ef brot er smá­vægi­legt.]
  • [210. gr. a.] Hver sem fram­leiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum eða hefur í vörslu sinni ljós­myndir, kvik­myndir eða sam­bæri­lega hluti sem sýna börn á kyn­ferðis­legan eða klám­fenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stór­fellt.