Samkvæmt nýjustu tölum á Mælaborði ferðaþjónustunnar frá í fyrradag hafa 82.411 fimm þúsund króna ferðagjafir úr ríkissjóði enn ekki verið nýttar.

Ferðagjöf númer tvö sem ríkis­stjórnin samþykkti að gefa lands­mönnum til að örva ferðaþjónustu innanlands á tímum kóróna­veirufaraldursins rennur út á miðnætti á fimmtudagskvöld.

Þegar hafa ríflega 183 þúsund manns sótt ferðagjöf upp á samtals 915 milljónir króna en aðeins um 123 þúsund fullnýtt hana fyrir 699 milljónir króna.

Þar af hefur 326 milljónum verið varið til kaupa á vöru og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Af heildarupphæðinni hefur 321 milljón farið til kaupa á veitingum.

Andvirði ónýttu ferðagjafanna nemur 432 milljónum króna.