Þingkosningar í Kanada fara fram á morgun, mánudaginn 21. október, en búist er við því að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslyndisflokksins, muni missa meirihluta sinn á þingi og því þurfa að treysta á samstarf með öðrum flokkum. Þetta kemur fram í frétt Reuters um málið.

Þrátt fyrir að skoðanakannanir gefa til kynna að flokkurinn muni missa fylgi er ekki búist við því að hann muni tapa fyrir Íhaldsflokknum og því enn von fyrir Trudeau sem hefur sætt mikilli gagnrýni á síðustu mánuðum.

Að sögn aðstoðarmanna forsetans hefur Trudeau á síðustu misserum reynt að ná beint til kjósanda og eytt meiri tíma í kosningarherferð sína en áður.

Sakaður um spillingu og kynþáttahatur

Fréttablaðið greindi frá því í mars á þessu ári að stjórnarandstaðan hafi krafðist þess að forsætisráðherrann segði af sér eftir að hann var sagður hafa átt óeðlileg afskipti af rannsókn á meintri spillingu innan kanadíska fyrirtækisins SNC-Lavalin. Trudeau neitaði því alfarið í kjölfarið.

Trudeau varð síðan fyrir öðru bakslagi í september þegar myndir af honum, þar sem andlit hans var málað svart (e. blackface), fóru í birtingu. Hann viðurkenndi í kjölfarið að hann hafi ekki tölu á því hversu oft hann hafi málað andlit sitt svart.

Talið var að myndirnar kæmu til með að hafa áhrif á endurkjör hans en forsætisráðherrann hefur ávallt gefið sig út fyrir að vera mikill talsmaður jafnréttis og fjölbreytileika.