Enn er tölu­verð skjálfta­virkni á Reykja­nesinu nærri Keili. Í til­kynningu frá Veður­stofunni í morgun kom fram að tveir skjálftar að stærð 4.1 og fjórum mínútum síðar annar 3.2 að stærð urðu um tvö leytið í nótt. Báðir skjálftarnir urðu á því svæði við norður enda Fagra­dals­fjalls þar sem virknin hefur verið hvað mest. Þá varð einn klukkan 8:55 sem var 3,1 að stærð og fannst á höfuð­borgar­svæðinu.

„Skjálftarnir eru á svipuðum slóðum. Norð­austan við Fagra­dals­fjall, sunnan við Keili, þannig þeir eru ekki að færast neitt. Svo á að bæta vöktun og mælum, GPS, gas og jarð­skjálfta­mælum,“ segir Elísa­bet Pálma­dóttir, náttúru­vá­r­sér­fræðingur á Veður­stofunni, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að það muni að­stoða þau við að skilja dýpt skjálftanna og þau fái ná­kvæmari mynd af því hvað er að gerast undir yfir­borðinu.

Auka vöktun

Veður­stofan fékk í gær 56,7 milljónir ís­lenskra króna til að bæta vöktun. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytinu er í minnis­blaði lagt til að settir verði upp 15 GPS mælar til að bæta vöktun, þar af fjórir vegna endur­nýjunar eldri mæla á svæðinu, auk tveggja jarð­skjálfta­mæla, eins gas­mælis og fjögurra hita­mæla.

Í svari ráðu­neytisins við fyrir­spurn Frétta­blaðsins um málið segir að mælarnir verði settir upp á svæðinu þar sem gervi­hnatta­myndir hafa sýnt mesta af­lögun, svo hægt séi að fylgjast betur með þróun á hreyfingu mögu­legrar kviku.

Þá segir að til við­bótar sé til um­ræðu að nýta dróna til mælinga og eftir­lits á sprungum á Reykja­nesi og mögu­legum breytingum á þeim.
Lögð er á­hersla á frekari greiningu á gervi­tung­la­gögnum og segir í svari ráðu­neytisins að það verði frekara sam­starf til að halda á­fram þeirri vinnu. Þá er einnnig unnið að keyrslu á líkönum, innan verk­efnisins Gos­vár, til þess að meta mögu­lega hraun­strauma ef til goss kemur.