Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, furðar sig á viðhorfi Lífar Magneudóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, þess efnis að ekki eigi að gera bólusetningar að skilyrði fyrir inngöngu í leikskóla. Kári ritaði pistil í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallar um bólusetningar og skrifar til Lífar, eftir grein hennar í blaðinu um helgina að ekki eigi að  beita „íþyngjandi aðgerðum við inntöku barna í leikskóla eins og að binda hana við bólusetningu þeirra.

Sjá einnig: Með og á móti: Eiga bólusetningar að vera skilyrði fyrir inntöku barna á leikskóla?

Kári fjallar í pistli sínum um mislinga og segir þá alvarlegan veirusjúkling sem geti leitt til banvænnar bakteríusýkingar og varanlegs skaða. Sjúkdómnum hafi verið haldið í skefjum í vestrænum heimi í áratugi með bólusetningum en upp á síðkastið hafi gengið verr að fá foreldra til að bólusetja börn sín. Hann segir einu leiðina til að „stemma stigu við þessu er að brýna foreldra til bólusetningar barna sinna.“

Þá fjallar hann um tillögu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem leggur til að skilyrði fyrir því að börn yrðu tekin inn í leikskóla borgarinnar sé að það sé búið að bólusetja þau og segir frá því þegar hann bjó í Bandaríkjunum hafi hann þurft að framvísa bólusetningarvottorði fyrir börn sín á hverju hausti.

„En þú, Líf Magneudóttir, sósíalistinn sjálfur gast ekki tekið undir tillöguna, fannst hún harkaleg og vega að rétti foreldra til þess ákvarða um örlög barna sinna. Þessi réttur foreldra til þess að láta ekki bólusetja börn sín fyrir mislingum er í raun rétturinn til þess að meiða börn annarra ef svo óheppilega vill til að sjúkdómurinn blossi upp en ef ekki þá rétturinn til þess að setja börn annarra í hættu,“ segir Kári svo í grein sinni.

Bílveikitafla eða endurmenntun í stíl Maós
Hann segir svo að það séu allir sammála um að það þurfi að bólusetja börn og í því samhengi er rétturinn til þess að láta ekki bólusetja barnið þitt fyrir mislingum rétturinn til þess að krefjast þess að önnur börn en þín sjái um að verja hópinn og þar með þín börn gegn sjúkdómnum. Einn af sérfræðingum mínum í blessun sósíalismans benti mér á að þótt foreldrar sem vilja ekki láta bólusetja börn sín séu að taka rangar ákvarðanir megi ekki láta það bitna á börnum þeirra. Mitt svar við því er að það er enn verra að láta það bitna á börnum annarra,“ segir Kári.

Hann segir að lokum það síðan í algjöru ósamræmi við grundvallarprinsipp sósíalismans sem Líf aðhyllist að vera á móti tillögu Hildar sem hann segir miðast við að ákveðnir einstaklingar færi „lágmarksfórn til þess að hlúa að hagsmunum samfélagsins“ og veltir því síðan fyrir sér hvers vegna það var Hildur, en ekki hún sjálf, sem lagði þessa tillögur fram.  

„Þetta ruglar mig í ríminu og veldur mér áhyggjum og mér er ekki ljóst hvort ég ætti að taka bílveikitöflu eða það ætti að senda þig upp í sveit til endurmenntunar í stíl Maós. En hitt veit ég fyrir víst að ég held áfram að hrífast af því hvernig Hildur reynir að hlúa fallega að þeim minnstu í því samfélagi sem hún býr í.“

Pistil Kára er hægt að lesa hér.