Fimmtán prósent kvenna þurfa að fara aftur í sýnatöku vegna yfirfærslu sýnarannsókna frá Íslandi til Danmerkur.

Rannsóknarhluti krabbameinsskimana í leghálsi var fluttur úr landi og enn vantar niðurstöður úr 90 prósent þeirra leghálssýna sem send hafa verið til Danmerkur síðan heilsugæslan tók við skimun um áramótin. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar vakti athygli á þessu á fundi Alþingis í gær og skrifar samsvarandi grein á Vísi í dag, þar sem hún spyr af hverju Heilbrigðisráðherra treysti ekki íslenskum sérfræðingum.

Í greininni er bent á að Læknafélag Íslands hafi ályktað að með flutningi rannsóknarhluta krabbameinsskimana í leghálsi séu mikilvæg sérhæfð störf flutt úr landi. Einnig sé það álit Félags íslenskra kvensjúkdóma og fæðingarlækna, Félags rannsóknarlækna, Embættis landlæknis og meirihluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini.

Í Læknablaðinu lýsir Reynir Tómas Geirsson fyrrverandi prófessor og forstöðulæknir kvennadeildar Landspítalans efasemdum um þessar fyrirkomulagi á legháls- og brjóstakrabbameinsleit. Hann óttast að mikilvæg þekking glatist hérlendis.

„Það er orðið sjálfstætt viðfangsefni að efla traust fólks og ekki síst að efla traust kvenna til þessa kerfis í ljósi þess hvernig að þessu hefur verið staðið“, skrifar Þorbjörg.

„Hvers vegna er betra fyrir almenning að þetta verkefni flytjist til Danmerkur?“ Spyr hún og að lítil rök hafi sömuleiðis komið fram um að nú eigi að skima fyrir leghálskrabbameini á 5 ára fresti í stað 3 ára eða hvers vegna það er betra að heilsugæslan sinni þessu verkefni nú.

Allt bendir til þess að undirbúningur þessa flutnings hafi verið illa unninn, skrifar Þorbjörg og um sé að ræða afturför í þjónustu við konur, þær sem hafi á því efni fari áfram til kvensjúkdómalækna sem hafa betri innsýn í aðstæður kvenna en hinar fari á heilsugæsluna til að borga minna.

„Konur sem eiga erfiða eða sára reynslu af meðgöngu og fæðingu, vegna kynferðisofbeldis eða af öðrum ástæðum þekkja vel hversu miklir skiptir að skoðunin fari fram af lækni sem hefur innsýn í þær aðstæður. Þær aðstæður eru fyrir hendi hjá kvensjúkdómalækninum sem þekkir sögu konunnar. Sú breyting að færa þessa skoðun til heilsugæslunnar er í mínum huga afturför“,segir Þorbjörg.

„Við erum einfaldlega komin á þann stað að traustið er laskað.“

Í fyrirspurn nýlega til heilbrigðisráherra, m.a. á þingi, um ástæðu þess að flytja sýnin úr landi, hefur enn ekki komin skýring nema sú að það sé öryggismál að fá utanaðkomandi til að greina sýnin.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ekki gefið skýringu á flutningi sýnarannsókna frá Íslandi
Mynd/Ernir Eyjólfsson