Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti á þriðjudag nýja IPA-styrki til umsóknarríkja sambandsins og vakti nokkra athygli að Ísland var þar á meðal. Styrkirnir verða 14 milljarðar evra til næstu sex ára og á að nota til þess að koma á lýðræðisumbótum, aðlaga regluverk og betrumbæta stjórnsýslu í viðkomandi ríkjum.

Eins og margir muna fór Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, til Slóvakíu árið 2015 með bréf um að aðildarviðræðunum við Evrópusambandið væri slitið. Hafði málið þá ekki fengið þinglega meðferð og Evrópusambandið vissi ekki hvernig ætti að taka þessu heldur. Datt nafn Íslands inn og út af listum yfir umsóknarríki í nokkur skipti eftir þetta.

Samkvæmt utanríkisráðuneytinu hefur Ísland ekki fengið neina IPA-styrki frá árinu 2013.

Eftir fyrirspurn Fréttablaðsins grennslaðist ráðuneytið um þetta og í kjölfarið fjarlægði Ráðherraráðið nafn Íslands úr tilkynningunni. Eru það því einungis sex Balkanríki sem fá greitt úr sjóðnum.