Þrátt fyrir að dregið hafi úr fordómum gagnvart einstaklingum með geðrænar áskoranir hér á landi á síðustu sextán árum eru fordómar enn talsverðir.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Geðhjálpar undir forystu Sigrúnar Ólafsdóttur, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem kynntar voru í gær.

Árið 2006 voru fordómar almennings á Íslandi mældir í fyrsta sinn og var rannsóknin endurtekin í ár. Gögnin gefa innsýn í viðhorf almennings og hvernig það hefur þróast á síðustu sextán árum.

Skömm hefur minnkað

Samkvæmt niðurstöðunum hefur dregið úr fordómum gagnvart þunglyndi á meðan fordómar gagnvart geðklofa virðast breytast hægar og síður.

Sem dæmi er verulega lægra hlutfall almennings nú sem vill ekki að einstaklingur með þunglyndiseinkenni sjái um börn eða gegni opinberum embættum í samanburði við árið 2006.

Sama þróun hefur ekki átt sér stað gagnvart einstaklingum með geðklofaeinkenni. Enn er um 90 prósent almennings sem vilja ekki að einstaklingar með slík einkenni sjái um börn sín eða börn sem hann þekkir.

Fordómar og skömm fólks við að segja frá aðstæðum sínum eða meðferð varðandi þunglyndi og geðklofa hefur minnkað. Þá eiga fleiri auðveldara með að tala við einstaklinga með þunglyndis- eða geðklofaeinkenni en áður.

Í niðurstöðunum vekur athygli að verulegur hluti almennings er tilbúin að neyða einstaklinga með slík einkenni til að leita sér meðferðar og hefur þróunin verið frá geðheilbrigðiskerfinu yfir í að vilja að einstaklingar leiti sér aðstoðar í almenna kerfinu.

Enn langt í land

Þrátt fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar gefi til kynna að dregið hafi úr fordómum gagnvart einstaklingum með geðrænar áskoranir á síðustu sextán árum eru fordómar enn talsvert útbreiddir.

Til að mynda vilja 15 prósent svarenda ekki að einstaklingur með einkenni þunglyndis gegni opinberu embætti. Þá vilja 20 prósent að viðkomandi ætti ekki að hafa umsjón með öðrum á vinnustað.

Tæplega 60 prósent vilja ekki að viðkomandi sjái um börn og 30 prósent vilja ekki að viðkomandi giftist einhverjum eða einhverri sem þeir þekkja. Ef um einkenni geðklofa er að ræða hækka tölurnar verulega.

Þannig vilja 87 prósent ekki að viðkomandi hugsi um börn, rúm 50 prósent vilja ekki að viðkomandi giftist einhverjum sem þau þekkja. Hátt í 40 prósent vilja ekki að viðkomandi gegni opinberum embættum og 35 prósent telja hann ekki eiga að hafa umsjón með öðrum á vinnustað.