Enn eru tals­verðar líkur á skriðu­föllum á Seyðis­firði en lík­lega sér fyrir endann á rigningunni í dag. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Veður­stofunni er verið að funda um málið. Neyðar­stig er á Seyðis­firði og hættu­stig á Eski­firði. Seyðis­fjörður var allur rýmdur í gær­kvöldi og á­kveðnar götur á Eski­firði. Í það minnsta tíu hús eyðilögðust í aurskriðunum. Viðbragðsaðilar funda um stöðuna.

Heyrist enn í fjallinu

Að sögn Rögn­valds Ólafs­sonar, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hann eigi von á nýjum upp­lýsingum um stöðuna fyrir austan um klukkan 11. Hann segir að enn sé tals­verð rigning og að það heyrist þó­nokkuð í fjallinu.

Rögn­valdur segir að enginn hafi þurft að gista í fjölda­hjálpar­stöðunum sem búið er að setja upp á bæði Seyðis- og Eski­firði en fram kom í til­kynningu frá al­manna­vörnum í gær að 540 í­búar frá Seyðis­­firði skráðu sig í fjölda­hjálpar­­stöð Rauða kross Ís­lands í Egils­­staða­­skóla á Egils­­stöðum. 165 í­búar á Eski­­firði skráðu sig í mót­töku­­stöð Rauða kross Ís­lands sem sett var upp í Eski­fjarðar­­kirkju og boðið að gista í fjölda­hjálpar­­stöð á Norð­­firði.

Opið dag hjá Rauða krossinum

Margrét Dögg hjá Rauða­kross­deildinni í Múla­sýslu sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í gær að vel hafi gengið að skrá fólk og að það yrði opið í dag fyrir alla til að fá sér morgun­mat og heitan mat.

Rafmagnslaust í gær

Í til­kynningu frá Mílu kom fram að raf­magns­laust varð á hluta Seyðis­fjarðar í gær í kjöl­far aur­skriðanna. Það varð þó ekki tjón á fjar­skipta­stöðvum Mílu og segir í til­kynningu að við­bragðs­aðilar hafi að­stoðað við að dæla vatni frá lóð í kringum húsið til að koma í veg fyrir að það komist raki í húsið og þar með í fjar­skipta­búnaðinn.

Mikill fjöldi við­bragðs­aðila hafa verið kallaðir út á svæðið og er, meðal annars, von á varð­skipinu Tý frá Land­helgis­gæslunni í dag. Um borð er 18 manna á­höfn.