Á­fram verður rýming á húsum á Siglu­firði og hættu­stig á Siglu­firði vegna snjó­flóða­hættu og ó­vissu­stig á Norður­landi. Frá þessu er greint í til­kynningu frá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra og lög­reglu­stjóranum á Norður­landi eystra. Þar segir að af­leitt veður hafi verið á Norður­landi í dag með all­hvössu veðri og kemur fram á vef Veður­stofunnar að þangað til klukkan 6 í fyrra­málið er þar gul við­vörun eins og annars staðar á vestan- og norðan­verður landinu.

Í til­kynningu segir að vegna snjó­söfnunar, veikra snjóa­laga og veður­spár fram undan hafi verið á­kveðið að rýma nokkur hús undir Strengs­giljum á Siglu­firði á mið­viku­dag vegna snjó­flóða­hættu og að sú rýming standi enn. Húsin sem rýmd voru eru undir varnar­garðinum Stóra-Bola.

Snjóflóð féll í gær

Snjó­flóð féll í Héðins­firði rétt fyrir klukkan 15 í gær og náði kóf af flóðinu langt út á vatnið. Spáð er á­fram­haldandi norðan- og norð­austan­áttum með skaf­renningi og élja­gangi fram yfir helgi og því má búast við því að snjó­flóða­hætta verði við­varandi næstu daga. Ekki hafa komið til­kynningar um að snjó­flóð hafi fallið í dag, en skyggni til fjalla verið lítið og því ekki hægt að segja með vissu um það hvort snjó­flóð hafi fallið.

Síðan varnar­garðurinn var reistur 1998-99 hafa mörg snjó­flóð fallið á hann og garðurinn bægt þeim frá byggðinni. Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjó­flóð á varnar­garða ofan Flat­eyrar og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endur­skoðun á virkni leiði­garða á fleiri stöðum. Fyrstu niður­stöður fyrir Stóra-Bola undir Strengs­giljum gefa til kynna að ef mjög stór flóð falla á garðinn geti gefið yfir hann. Rýmingin nú er því var­úðar­ráð­stöfun sem tekur mið af bráða­birgða­rýmingar­korti.

Ljósmynd/Almannavarnir

Siglu­fjarðar­vegur ófær

Siglu­fjarðar­vegur er ófær og ó­vissu­stig í gildi vegna snjó­flóða­hættu. Einnig er ó­vissu­stig af sömu sökum í Ljósa­vatns­skarði og Ólafs­fjarðar­múla. Þar gæti vegurinn lokast með skömmum fyrir­vara.

Vega­gerðin hefur lokað veginum um Ólafs­fjarðar­múla vegna snjó­flóðs sem féll þar um klukkan 16:30 í dag.

Fólk hvatt til þess að kanna með færð og lokanir á vegum áður en lagt er af stað. Í dag varð um­ferðar­ó­happ við ganga­munna Héðins­fjarðar­gangna þar sem tveir bílar lentu saman. Mikið kóf getur myndast við gangna­munna og er fólk beðið um að sýna sér­staka að­gát þegar ekið er inn eða út úr göngunum. Á­fram er spáð snjó­komu og vindi á Norður­landi um helgina. Varð­skip Land­helgis­gæslunnar, Týr, liggur inn á Eyja­firði og verður til taks á meðan hættu­á­stand varir.

Fólk er hvatt til þess að fylgjast vel með til­kynningum Veður­stofu Ís­lands og Vega­gerðarinnar