Áfram verður rýming á húsum á Siglufirði og hættustig á Siglufirði vegna snjóflóðahættu og óvissustig á Norðurlandi. Frá þessu er greint í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. Þar segir að afleitt veður hafi verið á Norðurlandi í dag með allhvössu veðri og kemur fram á vef Veðurstofunnar að þangað til klukkan 6 í fyrramálið er þar gul viðvörun eins og annars staðar á vestan- og norðanverður landinu.
Í tilkynningu segir að vegna snjósöfnunar, veikra snjóalaga og veðurspár fram undan hafi verið ákveðið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði á miðvikudag vegna snjóflóðahættu og að sú rýming standi enn. Húsin sem rýmd voru eru undir varnargarðinum Stóra-Bola.
Snjóflóð féll í gær
Snjóflóð féll í Héðinsfirði rétt fyrir klukkan 15 í gær og náði kóf af flóðinu langt út á vatnið. Spáð er áframhaldandi norðan- og norðaustanáttum með skafrenningi og éljagangi fram yfir helgi og því má búast við því að snjóflóðahætta verði viðvarandi næstu daga. Ekki hafa komið tilkynningar um að snjóflóð hafi fallið í dag, en skyggni til fjalla verið lítið og því ekki hægt að segja með vissu um það hvort snjóflóð hafi fallið.
Síðan varnargarðurinn var reistur 1998-99 hafa mörg snjóflóð fallið á hann og garðurinn bægt þeim frá byggðinni. Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjóflóð á varnargarða ofan Flateyrar og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endurskoðun á virkni leiðigarða á fleiri stöðum. Fyrstu niðurstöður fyrir Stóra-Bola undir Strengsgiljum gefa til kynna að ef mjög stór flóð falla á garðinn geti gefið yfir hann. Rýmingin nú er því varúðarráðstöfun sem tekur mið af bráðabirgðarýmingarkorti.

Siglufjarðarvegur ófær
Siglufjarðarvegur er ófær og óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu. Einnig er óvissustig af sömu sökum í Ljósavatnsskarði og Ólafsfjarðarmúla. Þar gæti vegurinn lokast með skömmum fyrirvara.
Vegagerðin hefur lokað veginum um Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðs sem féll þar um klukkan 16:30 í dag.
Fólk hvatt til þess að kanna með færð og lokanir á vegum áður en lagt er af stað. Í dag varð umferðaróhapp við gangamunna Héðinsfjarðargangna þar sem tveir bílar lentu saman. Mikið kóf getur myndast við gangnamunna og er fólk beðið um að sýna sérstaka aðgát þegar ekið er inn eða út úr göngunum. Áfram er spáð snjókomu og vindi á Norðurlandi um helgina. Varðskip Landhelgisgæslunnar, Týr, liggur inn á Eyjafirði og verður til taks á meðan hættuástand varir.
Fólk er hvatt til þess að fylgjast vel með tilkynningum Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar