Toyota mun kynna tvo nýja GRbíla á bílasýningunni í Tókýó 14. janúar næstkomandi. Um er að ræða enn öflugri útgáfu Yaris GR, en núverandi GR-útgáfa skilar 257 hestöflum út úr þriggja strokka 1,6 lítra vélinni. Eins og sjá má á myndum er bíllinn með stærri vindkljúf að framan og vindskeið að aftan og búast má við endurbótum á grind og undirvagni bílsins.

Nýi GR Yarisinn verður frumsýndur eftir nokkra daga og byggir nokkuð á reynslu bílsins í WRC-heimsmeistarakeppninni.

Auk hans er von á nýjum tilraunabíl frá Toyota sem kallast GR GT3 og eins og segir í fréttatilkynningu frá Toyota er bílnum ætlað að að sýna að merkið sé að smíða betri bíla fyrir mótorsportið. Um er að ræða bíl með vélina fram í til að keppa í „einni af hörðustu mótorsportkeppnum veraldar“ eins og segir í fréttatilkynningu. Af myndinni af GR GT3 að dæma virðist bíllinn ekki vera þróun á Supra eins og fyrir fram mætti búast við. Sjá má langa vélarhlíf með loftinntökum á frambrettunum og ílöngum ljósum ásamt stórum afturvæng. Of snemmt er að segja hvað leynist undir vélarhlífinni þar sem reglugerðir í GT3-keppnunum eru ekki strangar þegar kemur að vélbúnaði. Það sem skiptir máli er að bílarnir verða að vera byggðir á framleiðslubíl til að fá keppnisleyfi og því má ljóst vera af þessu að GR-mótorsportdeild Toyota hefur í nógu að snúast og margir spennandi hlutir þar að gerast á næstunni.