Enn hefur ekki verið ákveðið hvort maður sem grunaður hefur verið um skotárás á bíl borgarstjóra í janúar síðastliðnum, verði ákærður.

Maðurinn hefur einnig verið undir grun um að hafa skotið á skrifstofur flokksins við Sóltún 26 fyrr í sama mánuði.

Mikið var fjallað um málið þegar það kom upp og lögregla lýsti því yfir að málið yrði í algerum forgangi. Þann 30. janúar var maðurinn handtekinn og úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Um fyrrverandi lögreglumann er að ræða og fóru lögreglumenn hjá embætti héraðssaksóknara með rannsókn málsins. Þeirri rannsókn lauk um miðjan maí og er málið á borði ákærusviðs.

Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um ákæru, að sögn Önnu Barböru Andradóttur, saksóknara hjá embættinu.