Orkukostnaður er rúmlega tvöfaldur á dýrasta stað landsins miðað við þann ódýrasta. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar. Í Grímsey, þar sem rafmagn og húshitun er knúin með dísilolíu, er orkukostnaður 140 fermetra viðmiðunarhúsnæðis 354 þúsund krónur á ári. Á Seltjarnarnesi er kostnaðurinn aðeins 157 þúsund krónur.

Orkukostnaður er mjög misjafn eftir landshlutum og hærri í dreifbýli en þéttbýli. Þó að kostnaðurinn sé lægstur á Seltjarnarnesi er höfuðborgarsvæðið í heild sinni þó ekki ódýrara en önnur. Til að mynda er kostnaðurinn lægri á Akureyri og Sauðárkróki en í Reykjavík og Kópavogi. Því er þetta ekki hefðbundið byggðamál þar sem hægt er að stilla höfuðborgarsvæðinu upp á móti landsbyggð.

Einn landshluti kemur áberandi verst út úr skýrslunni en það eru Vestfirðir. Á Vestfjörðum er hár dreifikostnaður, fáar og litlar virkjanir og húshitun aðallega rafhitun. Rafhitun er almennt dýrari en hitaveita. Orkukostnaður á Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri og Suðureyri er 306 þúsund krónur á ári.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kemur frá Flateyri. Hún segir ekki eðlilegt að svona mikill munur sé á orkukostnaði. „Orkan er sameiginleg auðlind okkar,“ segir hún.

Orkukostnaður í nokkrum bæjarfélögum. Í þúsundum króna á ári fyrir 140 fermetra hús.

Þrátt fyrir að munurinn sé enn þá svona mikill hefur töluvert verið gert á undanförnum tíu árum eða svo til að jafna stöðuna. Meðal annars með niðurgreiðslum á dreifi- og flutningskostnaði raforku sem og húshitunarkostnaði. Þá er undir vissum kringumstæðum hægt að fá styrki frá Orkustofnun til að setja upp varmadælur.

Halla telur að til að laga stöðuna á Vestfjörðum þurfi að halda áfram á þessari leið niðurgreiðslna. Einnig að halda áfram jarðhitaleit, en 200 milljónum króna var bætt við hana í fjárlögunum í haust. En málið snúist líka um raforkuöryggi. Byrja þurfi á að auka afhendingaröryggi raforkunnar því Vestfirðir séu ekki hringtengdir.

„Að hringtengja er stór og dýr framkvæmd. Það borgar sig að framleiða meira á Vestfjörðum. Hér eru eiginlega aðeins smávirkjanir,“ segir hún.

Hin umdeilda Hvalárvirkjun í Árneshreppi er enn þá í nýtingarflokki en framkvæmdir þar hafa stöðvast um ótilgreindan tíma. Annar kostur í umræðunni er við Flókalund í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem aðstæður inn á dreifikerfið þykja góðar. Sá kostur er hins vegar ekki í rammaáætlun.

„Ef þessi virkjun rís eykst raforkuöryggið upp í 95 prósent á Vestfjörðum. Það myndi muna mjög miklu,“ segir Halla.

Í skýrslunni kemur fram að almennt er mun meiri verðmunur á húshitunarkostnaði en raforkukostnaði milli byggðarlaga. Hluti af því skýrist af aukinni samkeppni á raforkumarkaði. Þegar kemur að raforku er höfuðborgarsvæðið og Akranes ódýrasta svæðið með 81 þúsund króna árskostnaði fyrir viðmiðunarhúsnæðið fyrrnefnda. Þegar kemur að húshitun hagnast svæði almennt á því að vera nálægt heitum svæðum, svo sem Flúðir og Varmahlíð, á meðan fjölmennustu byggðarlögin eru fyrir miðju á listanum.