Nýjasta áætlunin vegna endurbóta á Hverfisgötu sem staðið hafa yfir frá í maí gerir ráð fyrir að hægt verði að opna fyrir akandi umferð í lok þessa mánaðar.

„Þó er stefnt að því að um miðjan október verði hægt að keyra niður Hverfisgötuna en þó bara í vesturátt,“ segir í svari frá Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg.

Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að verkinu sem hófst í maí í vor yrði lokið 23. ágúst. Verklok munu því tefjast um ríflega tvo mánuði frá þeirri áætlun. Í ágúst var hins vegar sagt að hægt yrði að opna fyrir umferð í lok ágúst og að verkið myndi klárast í september.

Helstu ástæður fyrir seinkun framkvæmdanna segir Bjarni vera tafir við lagnavinnu – meðal annars fleygun fyrir fráveitulögnum, vinna við kaldavatnslagnir og hitaveitulagnir auk fornminja sem tafið hafa vinnu við frágang við Traðarkotssund.

Fyrirtæki við Hverfisgötu skoða hvort þau eigi bótarétt vegna neikvæðra áhrifa á viðskiptin.