Stærsti eftirskjálftinn á svæðinu í Vatnafjöllum mældist í gærkvöld um klukkan 23:23 en hann var 3,4 að stærð.

Hátt í 350 eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu eftir að skjálftann á fimmtudaginn síðastliðinn reið yfir sem var 5,2 að stærð en hann átti upptök sín í Vatnafjöllum um 7,5 kílómetra suður af Heklu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvásérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er enn skjálftavirkni á svæðinu og ekki ljóst hvenær henni ljúki.

Aðspurð hvort enn sé verið að fylgjast vel með Heklu segir Bryndís að vel sé fylgst með öllu landinu líkt og venjulega.

„Það er kannski smá auka áhersla á Heklu meðan það er skjálftavirkni þarna í kring,“ segir hún.