Úkraínumenn neita að fjarlægja tundurdufl úr höfninni í Odesa til að hefja megi flutninga á hveiti á ný, af ótta við að Rússar nýti sér færið til að gera árás á borgina af hafi. Sergei Bratsjúk, héraðsstjóri Odesa, sagði á Telegram-síðu sinni að Rússa „[dreymdi] um að láta fallhlífaliða lenda yfir borginni.“

Innrás Rússa í Úkraínu hefur stefnt fæðuöryggi alls heimsins í hættu vegna truflana á ræktun og útflutningi hveitis. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðuneytisins frá apríl eru 30% af útflutningi á hveiti á heimsvísu frá Rússlandi og Úkraínu.

Rússar sögðust í gær vera reiðubúnir til þess að tryggja öryggi úkraínskra flutningaskipa með kornvörur um Svartahaf í samstarfi við Tyrki. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tilkynnti þetta á fundi með tyrkneskum starfsbróður sínum, Mevlüt Çavusoglu, í Ankara. Lavrov sagði Úkraínu nú bera alla ábyrgð á því hvort kornflutningi yrði haldið áfram, Rússland hefði nú þegar gert allt sem þyrfti.

Samkvæmt hugmyndum Tyrkja yrðu tyrknesk skip fengin til að fylgja kaupskipum á leið frá Odesa og öðrum úkraínskum höfnum.

Rússar hafa fyrir sitt leyti hafnað því að þeir beri ábyrgð á röskun á matvælaöryggi og kenna viðskiptaþvingunum Vesturlanda um. Þvinganirnar beinast ekki gegn rússneskum matvælum en rússnesk stjórnvöld hafa lýst því yfir að korn verði ekki flutt frá Rússlandi á alþjóðlega markaði fyrr en þvingununum verður hætt.