Enn lekur olía úr flaki olíubirgðaflutningaskipsins El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Kajakleiðsögumaðurinn Hlynur Vestmar Oddsson náði myndum af brákinni á þriðjudag og dauðum æðarungum í fjörunni.

„Ungarnir synda á land, krókna og drepast,“ segir Hlynur og er ekki vongóður um að ástandið lagist. „Skipið er tifandi tímasprengja.“

El Grillo laskaðist mikið í sprengjuárás Þjóðverja árið 1944 og ákváðu Bretar að sökkva skipinu fullu af olíu og sprengjum. Í gegnum áratugina hefur hluti af olíunni og sprengjunum verið fluttur úr flakinu. Þó er umtalsvert magn þar enn.

Eftir leka í fyrra fóru kafarar Landhelgisgæslunnar að flakinu og steyptu yfir gat á tanki en lekið hefur margsinnis úr skipinu.

Hvorki Umhverfisstofnun né Seyðisfjarðarhöfn höfðu fengið tilkynningu um lekann þegar Fréttablaðið hafði samband. „Í fyrra var fundað og gerðar tillögur um að ná olíunni upp,“ segir Lilja Ólafsdóttir, hjá Umhverfisstofnun. „Þær tillögur liggja nú hjá ráðuneytinu.“