Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var meðal þeirra sem tóku þátt í Heimsþingi kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum – Woman Leaders, í dag. Clinton ræddi þar við Melanne Verveer um næstu skref og hvað ætti eftir að gera til þess að ná fram jafnrétti kynjanna.

„Það eru 25 ár liðin frá frægu ræðunni hennar í Peking þar sem hún sagði að kvenréttindi væru mannréttindi,“ sagði fjölmiðlakonan Þóra Arnarsdóttir þegar hún kynnti viðtalið sem Melanne tók við Clinton en Melanne er yfirmaður stofnunar Georgetown háskóla fyrir konur, frið og öryggi.

Spennt fyrir framtíð Bandaríkjanna

Það kom ekki á óvart að fyrsta spurning viðtalsins skyldi snúa að úrslitum forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en Clinton bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2016 á móti Donald Trump. Kosningarnar í ár fóru fram í síðustu viku en um helgina var því lýst yfir að Joe Biden hafi sigrað kosningarnar.

Að öllu óbreyttu verður því Kamala Harris fyrsta konan í sögunni til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna, auk þess sem hún verður fyrsta svarta konan og fyrsta konan af asískum ættum. Aðspurð um málið sagði Clinton niðurstöðuna vera léttir og að hún væri bjartsýn á framhaldið.

„Mér líður betur en ég hef gert í fjögur ár,“ sagði Clinton og bætti við að hún væri hamingjusöm og þakklát. „Ég er spennt fyrir teymi Joe Biden og Kamala Harris, hlakka til að sjá þau taka við embætti forseta og varaforseta; að ná þjóðinni okkar saman og koma okkur aftur á réttan kjöl í framtíðinni.“

Baráttunni haldið á lofti

Verveer spurði Clinton því næst út í ræðu hennar á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna, sem Þóra vísaði til í upphafi, og hvaða þýðingu sá fundur hafði á sínum tíma. Clinton sagðist hafa vonast til þess að Bandaríkin og aðrar þjóðir myndu setja kvenréttindamál efst á lista yfir helstu verkefni heimsins.

„Það var spennandi því að út frá þessari ráðstefnu komu tækifæri fyrir aðgerðir. Augljóslega var það erfitt, samningsviðræður stóðu yfir langt fram eftir kvöldi, en á endanum skrifuðu 189 þjóðir undir samkomulag og það hefur reynst endingargott,“ sagði Clinton og bætti við að vel hafi tekist að halda eldmóðnum uppi.

Enn langt í land víða

Hún segir að það hafi sést hvað hafi tekist og hvar á enn eftir að gera meira. Hún tók sem dæmi að menntun kvenna hafi aukist, aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé betra, fleiri konur séu nú kjörnir fulltrúar, tækifæri kvenna víða í samfélaginu séu nú fleiri, og svo framvegis.

Þó væri enn langt í land í ýmsum málaflokkum og nefndi þar að launamunur kynjanna hafi staðið í stað á heimsvísu, sérstaklega eftir COVID-19, konur væru enn að sjá að mestu um heimilin, enn væri mikið um ofbeldi gagnvart konum, sérstaklega frá mökum, og að enn væru konur ekki teknar alvarlega á vinnumarkaði og á pólitískum vettvangi.

Hún sagði nauðsynlegt að breyta reglum og venjum þegar kemur að konum en innrætt hefur verið í konur að þær séu ekki nógu góðar. Þörf er á breytingum svo að hægt sé að halda þróuninni áfram að sögn Clinton. Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.