Sigmundur Ernir Rúnarsson
Laugardagur 20. nóvember 2021
05.00 GMT

Á skrifstofu borgarstjóra í Ráðhúsi Reykjavíkur, sem vísar í suður yfir Tjörnina og Vatnsmýrina, hangir innrömmuð mynd að baki skrifborðsins sem er yfirfullt af pappírum og skýrslum af allra handa tagi. Strax í anddyrinu fangar hún athygli aðkomumanns, þessi mynd, en þar stendur svart á hvítu með stóru letri; Aldrei hætta að þora.

En það er ekkert annað á þessari mynd, bara þessi orð, pensluð áberandi og einbeittum strokum á hvítan pappír. Og þar utan um er svartur ramminn.

„Geggjuð mynd og frábært kjörorð,“ segir Dagur við mig þegar við erum í þann mund að setjast í svörtu leðurstólana á kontórnum. „Mér þykir reyndar rosalega vænt um hana,“ bætir hann við og útskýrir: „Einn okkar bestu borgarstarfsmanna, Gísli Kristjánsson þúsundþjalasmiður, vélfræðingur og listamaður hafði þetta að einkunnarorðum sínum – og hann hefur einfaldlega rétt fyrir sér, maður á aldrei að hætta að þora.“

Borgin er miklu skemmtilegri

Hárið á Degi hefur gránað frá því ég sá hann síðast, en sveipirnir rísa jafn hátt og áður, svo sem verið hefur einkennismerki hans allt frá því hann byrjaði sem borgarfulltrúi í upphafi aldarinnar og varð fyrir vikið þjóðkunnur, en árin í Ráðhúsinu verða orðin tuttugu á næsta ári þegar kosið verður til nýrrar stjórnar borgarinnar.

Dagur notaði ekki stafinn þegar gengið var upp Þingholtin.
Fréttablaðið/Valli

Og hann er ekki í nokkrum vafa um hvað skipti hann mestu þegar hann horfir yfir farinn veg, „en það eru umbreytingarnar í borginni í græna átt, að betri borg fyrir borg, hjólreiðarnar og húsnæðismálin“ segir hann ákveðið „og borgin er orðin miklu manneskjulegri fyrir vikið – og skemmtilegri.“

Hann segist hafa hugsað sem svo fyrir fjórum árum, þegar fyrsta kjörtímabil hans á stóli borgarstjóra var að klárast að ef hann fengi brautargengi annað kjörtímabil yrði það hans seinna við stjórn borgarinnar. En þetta kjörtímabil hafi sannarlega orðið óvenjulegt, farsóttin og fylgigigtin, svo margt hafi breyst við heimsfaraldurinn og veikindi hans sjálfs.

„Að sumu leyti finnst mér ég enn vera í miðju verki. Við náðum tímamótasamningum í samgöngumálum sem varða Borgarlínuna og hluta Miklubrautar og Sæbrautar í stokk. Þetta eru risaverkefni og mikil lífsgæðamál, en þar fyrir utan má nefna Sundabraut sem er komin í uppbyggilegan farveg. Ekkert af þessu er hins vegar komið í framkvæmd og einhver hluti af mér vill sannarlega sjá þetta til enda,“ segir Dagur og nefnir að auki að það sé magnað að fylgjast með Reykjavík verða líflegri og að meiri heilsuborg með hverju árinu eftir því sem byggðin þéttist og þjónustan færist meira inn í hverfin.

Enn þá verk að vinna

Þú ert að segja mér að þú sért ekki að hætta í borgarpólitíkinni?

„Það er enginn ómissandi í pólitík, en það er enn þá verk að vinna,“ svarar Dagur og gerist harla dulur á svip, svo ég endurtek spurninguna. „Ég mun gera þetta upp við mig fljótlega en er ekki enn kominn að niðurstöðu. Mér finnst mikilvægt að sjá hvernig þessum stóru málum reiðir af í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar og hvernig málum vindur fram hjá öðrum flokkum í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn er því miður þverklofinn og ekki treystandi,“ svarar hann og vísar til fyrri orða um hálfnað verk – og ég segist túlka þess orð hans á einn veg, aðeins einn veg. Þá brosir hann, en breytir svo snöggvast um svip, verður hugsi.

„Ef þú hefðir spurt mig í vor þá hefði ég líklega sagst vera að hætta. En ég ákvað að bíða með slíkar ákvarðanir,“ og hann þagnar um stund, heldur svo áfram og rómurinn er hægur: „Skotárásin við heimili okkar Örnu fékk mikið á okkur. Mín ósjálfráðu viðbrögð voru þá; ég er hættur, þarna eru mörkin. Ég get ekki boðið fólkinu mínu upp á þetta. Hér verð ég að draga línu í sandinn,“ og hann segir að þótt hann hafi fyrir löngu verið búinn að venjast pólitískri hörku og óbilgirni og jafnvel verið farinn að sætta sig við hversdagslegar svívirðingar þá hafi þetta verið eitthvað allt annað

Dagur segir að sín ósjálfráðu viðbrögð við skotárásinni á heimili fjölskyldunnar hafi verið að hætta.
Fréttablaðið/Valli

Þú bognaðir?

„Í byrjun var þetta fyrst og fremst áfall. Þegar á leið fann ég hvað þetta varpaði miklum skugga yfir svo margt. Já, þetta sat í mér og lagðist á mig eins og mara,“ og hann horfir yfir að skrifborðinu, virðir myndina með einkunnarorðum Gísla fyrir sér, en segir svo rólega frá því að þegar hann horfi til baka átti hann sig betur á hvað árásin hafi hvílt þungt og lengi á heimilinu: „Þetta tók meira á mig og mína en ég þorði að viðurkenna á meðan að málið reis hvað hæst í vor. Og skugginn af því fylgdi okkur inn í sumarið.“

Sat hræðslan heima fyrir lengi í þér?

„Hræðsla er kannski ekki rétta orðið. Ég stóð hins vegar sjálfan mig að því að horfa öðruvísi út um gluggann á heimilinu en ég hafði áður gert. Ég upplifði ákveðið varnarleysi. Það er óhuggulegt í alla staði að vera hræddur heima hjá sér.“

Hann segir að þessi lífreynsla hafi verið mikil viðbrigði því hann eins og aðrir hafi trúað á gott og friðsamt samfélag. Aðalsmerki þess að búa í Reykjavík eigi að vera það að fólk geti umgengist og átt samtöl eins og jafningjar: „Ég elska að ganga um götur og heilsa upp á fólk eða fara í heita pottinn til að ræða málin og þannig samfélagi viljum við einmitt byggja, tala hvert við annað í augnhæð, en hinn kosturinn hefur bara verið svo fráleitur, að finna ekki til öryggis á meðal fólks.“

Ætlaði ekki í pólitíkina

Dagur er fæddur í Osló á kvenréttindadaginn 19. júní 1972 og stendur því brátt á fimmtugu, en hann er elstur þriggja barna þeirra Bergþóru Jónsdóttur og Eggerts Gunnarssonar sem voru að læra lífefnafræði og dýralækningar í Noregi þegar frumburðinn kom í heiminn, ógift þá og allsendis grunlaus um að drenginn þyrfti að kenna við móðurina af því faðirinn var ekki eiginmaður á útlenskum pappírum.

Dagur verður fimmtugur á næsta ári.
Fréttablaðið/Valli

Sjálfur var Dagur staðráðinn í því að fara álíka leið og foreldrar sínir í framhaldsnámi – og valdi lækninn „svo ég yrði örugglega ekki pólitíkinni að bráð,“ segir hann með glotti á vör, en meinar hvert orð: „Ég fann strax á þessum námsárum mínum að þjóðmálaáhuginn ólgaði innra með mér, en vissi ekkert hvað þar var í gangi af því að enginn í fjölskyldunni var svona pólitískt þenkjandi. Svo að læknisfræðin átti að bjarga mér út úr þessum bráða vanda.“

En svo fór að hann varð ekki læknirinn á heimilinu, heldur konan hans, Arna Dögg Einarsdóttir sem er læknir á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, en þau hafa verið saman „allt frá fyrsta kossi 1998“ og það glaðnar yfir viðmælandanum um stund, áður en talið berst að heimilishaldinu og uppeldi fjögurra barna á aldrinum 17, 16, 12 og 10, en á bak við þær tölur eru Ragnheiður Hulda, Steinar Gauti, Eggert og Móeiður.

„Það eru forréttindi að vera borgarstjóri en það getur verið fórn fyrir þá sem eru manni nánastir. Álagið sem fylgir starfinu er oft mjög mikið og álaginu heima fyrir er misskipt eftir því. Ég skrifa aðeins um þetta í nýju bókinni og kemst þannig að orði að ég upplifi mig nánast sem gervifeminista. Ég er alinn upp í jafnrétti. Mamma og pabbi skiptu heimilisverkunum alltaf jafnt á milli sín þegar þau voru að ala okkur systkinin upp. Í þeim samanburði hef ég ekki staðið mína plikt. Það er á við framkvæmdastjórastöðu að reka heimili með fjögur börn á aldrinum 10 til 17 ára og henni hefur Arna gegnt að stórum hluta. Þannig er það bara.“

Dagur segir ósanngjarnt að annað foreldrið sjái meira um uppeldið.
Fréttablaðið/Valli

Hefurðu misst af börnunum?

„Nei, samband mitt við krakkana er gott. En það getur verið ósanngjarnt að vera makinn sem er bara til staðar þegar það er gaman hjá börnunum en vera oftast víðs fjarri þegar það þarf að leysa úr öllum þessum aragrúa hversdagslegra verkefna sem þarf að sinna á stóru barnaheimili.“

En hefurðu misst af Örnu?

„Nei, sem betur fer ekki – og þvílík gæfa að hafa hitt hana – og heppni. Það er ekkert sjálfgefið að hitta réttu manneskjuna, en það gerðist í mínu tilviki – og hennar sennilega líka,“ segir Dagur og brosir á ný: „Við eigum sem betur fer fjölmargt sameiginlegt og verjum fyrir vikið miklum tíma saman,“ segir eiginmaðurinn og bætir sem snöggvast við, „eiginlega alltaf þegar við getum,“ en bendir svo á eina ókostinn á ráðahagnum, en svo margir vinir Örnu búi í Svíþjóð þar sem hún hafi sjálf alist upp í fimm systkina hópi, næst elst á heimili Einars Þórhallssonar læknis og Sigríðar Steinarsdóttur lífeindafræðings sem hafi sest að í bænum Växjö og búi þar enn. „Það er svolítill spölur í matarboðin á þeim bæjunum.“

Bókin um borgina og breytingarnar

En hefur engin alvara verið í því að söðla um og fara í landsmálin?

„Það hefur oft komið til tals – og vel að merkja, ég ætla að ekki að fullyrða sem svo að ég fari aldrei í landsmálin. Það hafa allt of margir brennt sig á því,“ en hann segir að alltaf hafi borgin togað meira í sig en landsmálin: „Borgarmálefnin eru vanmetin, en verkefnin bæði stór og skemmtileg. Viðfangsefnin eru líka svo nálægt manni og fyrir vikið er svo auðvelt að brenna fyrir þeim. Krakkarnir minna mig oft á þetta þegar við erum á ferð um borgina, en þá hef ég óvart tekið krók eða sveigt af leið til að skoða eitthvert uppbyggingarsvæðið.“

Síðustu þingkosningar hafa sumsé ekkert kitlað?

„Ég var óvenju fljótur að hugsa minn gang í aðdraganda þeirra,“ segir hann og brosir, en setur svo upp næsta íbygginn svip: „Það kemur dagur eftir þennan dag.“

Og það er auðvitað til marks um ódrepandi borgarmálaáhuga Dags að hann sendir frá sér viðamikla bók um borgina við Sundin blá í næstu viku, en hún ber nafnið Nýja Reykjavík – umbreytingar á ungri borg, en þar fjallar hann um umskiptin í Reykjavík á síðustu áratugum sem hann hefur starfað í Ráðhúsinu og sögu þeirra róttæku hugmynda sem hann segir í sígandi mæli vera að verða að veruleika.

„Ég hef gengið með þessa bók í maganum býsna lengi, kannski allt frá því samstarf okkar Jóns Gnarr, forvera míns á stóli borgarstjóra, var og hét. Ég lærði svo ótal margt af honum, svo sem þá afstöðu að vera ekki alltaf að svara úrtöluröddum heldur gera bara hlutina. Þessi heildarhugsun hefur ekki verið til á einum stað fyrr en núna, með bókinni.“

Hann segir að ritið hafi í fyrstu átt að vera einskonar borgarþróunarbók, en svo þegar á leið hafi hún orðið persónulegri og vonandi skemmtilegri og aðgengilegri fyrir vikið: „Ég rek atburðarásina í borgarpólitíkinni á tíma mínum í borgarstjórn sem hefur verið vægast sagt litrík,“ segir hann og fórnar höndum og báðir sjáum við fyrir okkur fjörlegt sviðið, frá tímum Reykjavíkurlistans sem batt enda á óralangt valdaskeið íhaldsins í borginni árið 1994, þar til vinstriflokkarnir héldu um þræðina með Framsókn á nýrri öld, sigra Ingibjargar Sólrúnar, skamma valdatíð Þórólfs Árnasonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, valdatöku Vilhjálms Þ. Vilhjámssonar, hundrað daga stjórnartíð Dags á mánuðunum áður en allt hrundi, upprisu og fall Ólafs F. Magnúsonar og loks fordæmalausa valdatíð Jóns Gnarr eftir kosningarnar 2010. Og við tökum báðir andköf, þvílíkir tímar og rússibanareið: „Auðvitað svipti ég hulunni af ýmsu sem gerðist á bak við tjöldin,“ segir hann með glotti á vör „milli þess sem ég segi frá metnaðarfullum áformum og alls konar hugmyndum og verkefnum sem eru á fárra vitorði.“

Uppbyggingin átti að hefjast fyrr

Hann segir mikinn létti að vera búinn með bókina – og þegar hann er inntur eftir því hvað hafi komið honum mest á óvart við alla þessa rannsóknarvinnu er hann snöggur til svars: „Hvað þetta hefur verið viðburðaríkur tími,“ og hann lygnir aftur augum. „Hvað Reykjavík hefur sótt fram á mörgum sviðum. Og hvað krafturinn og umbreytingin er mikil. Viltu að ég telji allt upp? Vísindaþorpið í Vatnsmýri, kvikmyndaþorpið í Gufunesi, uppbygginguna úti á Granda, húsnæðisuppbyggingu fyrir alla tekjuhópa, endurnýjun miðborgarinnar, umbyltingu í hjólareiðum og þéttingu byggðar um alla borg ...“

En ég stoppa hann af og spyr hvort menn á borð við Bolla Kristinsson muni falla fyrir þessari bók?

„Ég vona að þeir lesi hana og átti sig á því að gömlu hugmyndirnar um hraðbrautaborg, þvers og kurs um Reykjavík hefðu endað með minni lífsgæðum allra og einni stórri umferðarsultu“ og Dagur minnir á að stjórnendur allra vistvænustu borga heims hugsi eins, að draga úr umferð og gera byggðina grænni og sjálfbærari.

En talandi um gagnrýni. Eftir hverju sérðu mest?

„Húsnæðisuppbyggingin hefur slegið met síðustu fimm ár en hefði mátt hefjast strax eftir hrun. Það var arfavitlaust af hægrimönnum að leggja verkamannabústaðakerfið niður um aldamótin og það fór ofboðsleg orka og tími í það hjá okkur hinum að bregðast við. Hugsaðu þér, það fóru aðeins tíu íbúðir í byggingu í borginni á heilu ári þegar við tókum við af íhaldinu árið 2010,“ og hann baðar út höndum, gáttaður á samanburðinum við síðustu ár. „En sumsé, það tók of langan tíma að finna svarið og búa til úrræði á borð við Bjarg, byggingarfélag og aðrar félagslegar lausnir á ný.“

Gigtin fyllti mig kvíða og depurð

Við röltum upp Þingholtin, heim á Óðinsgötu og ég tek eftir því að Dagur stingur ekki lengur við. Og þegar inn er komið hangir raunar stafurinn uppi á hönk í anddyrinu. Yfir ilmandi kaffibolla spyr ég hvernig hann hafi það og hvort hann hafi náð sér: „Já og nei,“ er svarið. „Ég er svo til verkjalaus og finn ekki fyrir bólgum eins og áður. Það er lyfjunum að þakka. Það er helst að gigtin togi í mig ef ég ætla mér um of.“

Dagur segir mikinn létti að vera búinn með bókina.
Fréttablaðið/Valli

Dagur greindist með fylgigigt haustið 2018 eftir að hafa glímt við sýkingu af völdum iðrakveisu. „Ég var óheppinn segir hann“ og ræðir svo áfallið: „Óvissan var verst, ég vissi í byrjun svo lítið, svo sem hvernig ég myndi svara lyfjunum – og þróun sjúkdómsins getur verið svo ótrúlega ólík eftir einstaklingum.“

Og hann rifjar upp sögu: „Þegar meðferðin fór á fullt sagði læknirinn minn að hann væri bjartsýnn, en ég yrði að forðast allt álag – og svo hló hann eins og hross,“ og Degi er skemmt yfir sögunni, getur eftir allt saman brosað þótt hann hafi á tímabili velt því fyrir sér hvort hann yrði að láta af störfum í Ráðhúsinu. „Ég var orðinn smeykur um það á tímabili. Ég komst varla á milli hæða hérna í húsinu,“ segir hann og bendir fram á skör. „Ég svaraði lyfjunum vel í byrjun, en svo fékk ég aðra sýkingu sem sló mig til baka. Það fyllti mig kvíða og depurð eins og ég reifa í nýju bókinni – og reyndist mér miklu erfiðara en greiningin í byrjun.“

En stafurinn er óhreyfður?

„Já, en hann er áminning,“ segir Dagur, „áminning um dýrmæti heilsunnar.“

Og svo er bara að hætta ekki að þora?

„Aldrei,“ segir hann, hæfilega langt frá glugganum sem vísar út á torg.

Athugasemdir