Mikil átök eru nú á milli há­skóla­nem­enda og lög­reglu í Hong Kong en hundruð nem­endur eru enn lokaðir inni í Polyt­echnic há­skólanum. Tölu­verður fjöldi fólks hefur nú reynt að flýja frá svæðinu en sumir hafa verið lokaðir inni í skólanum í næstum því viku að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið.

Lög­regla reynir nú að koma í veg fyrir að fólk flýji en að sögn yfir­valda í Hong Kong er Rauði Krossinn á svæðinu og verður særðum ein­stak­lingum heimilt að fara af svæðinu. Þá segir lög­regla að mót­mælendur hafi engra kosta völ nema að gefa sig fram til lög­reglu.

Auk há­skóla­nema eru um eitt hundruð mennta­skóla­nem­endur lokaðir inni í skólanum. For­eldrar þeirra sitja nú fyrir framan vega­tálma lög­reglu og halda uppi skiltum sem á stendur „bjargið börnunum okkar,“ eða „Save Our Kids.“

Reyna að draga lögreglu annað

Fjöl­margir mót­mæla nú víða annars staðar í Hong Kong til þess að reyna að draga lög­reglu frá há­skóla­svæðinu svo þeir sem eru lokaðir inni geti sloppið. Þá hefur lög­regla notað tára­gas og skotið gúmmí­kúlum í mót­mælendur sem reyna að flýja.

Stjórn­völd hafa nú hótað að fresta kosningum í héraðinu sem eiga sér stað næsta sunnu­dag ef mót­mælunum linnir ekki. Slíkar að­gerðir yrðu þó lík­legast einungis til að hella olíu á eldinn þar sem mót­mælendur líta á kosningarnar sem eitt af fáum verk­færum sínum til knýja fram breytingar.

Mót­mælendur unnu þó tölu­verðan sigur fyrr í dag þegar hæsti­réttur í Hong Kong úr­skurðaði að um­deild lög sem bönnuðu notkun á grímum væru brot á stjórnar­skrá. Að sögn lög­reglu hafa þau nú hætt að fram­fylgja lögunum.