Sala á freyðivíni og kampavíni jókst um ríflega 25 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

Frá árinu 2016 hefur sala þessara víntegunda aukist um 58 prósent. Salan hrapaði eftir hrun og fór lægst niður í samtals 94 þúsund lítra árið 2009. Ef svo fer sem horfir verður salan á þessu ári um 200 þúsund lítrar. Það samsvarar um 266 þúsund flöskum á tæplega 350 þúsund íbúa landsins.

Sala á hvítvíni minnkaði um 3,4 prósent í maí og júní miðað við í fyrra. „Stundum er talað um að sala á hvítvíni endurspegli veðrið en ég held það sé óvísindalegt,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir hjá ÁTVR.