Enn er hættu­stig á Seyðis­firði og rýmingar að hluta í gildi vegna skriðu­hættu. Á­ætlað er að skipu­lagðar hreinsunar­að­gerðir hefjist 27. Desember.

Sam­ráðs­fundur Veður­stofu Ís­lands, al­manna­varna­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra, lög­reglunnar á Austur­landi á­samt við­bragðs­aðilum, sveitar­fé­lagi og stofnunum, vegna skriðu­hættu á Seyðis­firði, var haldinn í morgun. Fram kemur í til­kynningu frá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra og lög­reglu­stjóranum á Austur­landi að þar hafi næstu skref verið rædd og hvernig að­gerðum skyldi hagað yfir jóla­há­tíðina.

Í gær­kvöldi var gefið út kort með rýmingu sem verður í gildi í að minnsta kosti til 27. desember. Segir í til­kynningu að þeir sem eigi hús­eignir innan rýmingar­svæðis geta gefið sig fram í Ferju­húsinu í dag og fengið fylgd í húsin til þess að sækja nauð­synjar eða annað laus­legt sem þeir vilja hafa yfir jólin.
Um sé að ræða sama fyrir­komu­lag og hafi verið síðustu daga og að það megi búast við því að hægt verði að gera þetta fram að myrkri í dag en sam­kvæmt Veður­stofunni er það klukkan 16:07 í dag á Seyðis­firði.

Á myndinni má sjá rýmingarsvæðið á Seyðisfirði.
Ljósmynd/Almannavarnir

Óhagstæð veðurspá á Austurlandi

Eftir það verður ekki leyfi­legt að fara inn á rýmingar­svæðið vegna ó­hag­stæðrar veður­spár. Sam­kvæmt veður­spá er gert ráð fyrir hlýnun upp að 8°C og getur þá snjór farið að bráðna í fjöllum. Í til­kynningu segir að við þessar að­stæður geti stöðug­leikinn sem myndaðist í skriðu­sárunum raskast og ein­hver hreyfing á svæðinu myndast í kjöl­farið.

Staðan verður endur­metin af Veður­stofunni þegar kólna fer aftur og rýmingar­kortið endur­skoðað 27. desember. Þá er einnig á­ætlað að hefja skipu­lagða vinnu við hreinsun og við­gerðir.

Al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, Veður­stofan og lög­reglan á Austur­landi verða í reglu­legu sam­bandi yfir jólin og fylgjast með þróun mála.

Opið í þjónustumiðstöð

Þjónustu­mið­stöð al­manna­varna er til húsa í Herðu­breið, menningar- og fé­lags­heimili Seyðis­fjarðar, og verður opnunar­tíminn fram að ára­mótum eins og hér segir:

23. desember, klukkan 11 – 18
27-30 desember, klukkan 11 – 18
31. desember, klukkan 11 – 13

Myndin er tekin á Seyðisfirði í morgun.
Ljósmynd/Almannavarnir