Áfram er rýming á húsum á Siglufirði og hættustig vegna snjóflóðahættu og óvissustig á Norðurlandi. Varðskip Landhelgisgæslunnar, Týr, er úti fyrir Eyjafirði og verður til taks á meðan hættuástand varir.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þar segir að áfram sé spáð snjókomu og vindi næstu daga á Norðurlandi. Í dag hafi fallið snjóflóð í Héðinsfirði en að ekki hafi borist fleiri tilkynningar um flóð. Vegna þessa verður þó hættustiginu ekki aflétt eða rýmingum sem eru í gildi á Siglufirði en þar féllu einnig flóð í gær.
Íbúar sem rýmdu hús í gær fá að fara heim undir kvöld til þess að sækja hluti og huga að eigum sínum undir eftirliti lögreglu en fá ekki að dvelja þar.
Þá kemur fram í tilkynningu að í dag hafi tekist að opna Siglufjarðarveg og veginn um Ólafsfjarðarmúla en að honum verður aftur lokað kl 20:00 í kvöld vegna hættu á snjóflóðum. Búast má við truflunum á samgöngum á meðan þetta ástand varir og er fólk hvatt til þess að fylgjast vel með tilkynningum Vegagerðarinnar.
Þá er vegurinn um Ljósavatnsskarð á óvissustigi vegna snjóflóðahættu og tilkynnt um að krapastífla hafi verið að myndast við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum og er fólk beðið um að hafa varann á sér þegar farið er um þann vegakafla.
Á vefsíðu Veðurstofu Íslands má sjá spá um staðbundna snjóflóðahættu utan þéttbýlis og til fjalla. Á vef Vegagerðarinnar má sjá allar upplýsingar um færð og ástand vega.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Lögreglan á Norðurlandi eystra, Veðurstofa Íslands og sveitarfélagið Fjallabyggð fylgjast áfram náið með þróun og stöðu mála.
Varðskipið Týr kom inn á Eyjafjörð í morgun eftir siglingu frá Austfjörðum þar sem skipið var statt við eftirlitsstörf. ...
Posted by Landhelgisgæsla Íslands/Icelandic Coast Guard on Thursday, 21 January 2021