„Gosið er enn í gangi. Það fékk sér kríu í nótt en byrjaði aftur árla í morgun, segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúrvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um virknina á eldstöðvunum í Geldingadölum.

Hlé varð á gosinu í gær um klukkan hálffimm síðdegis en virknin hófst aftur um klukkan sex í morgun að sögn Salóme.

Á vef Jarðvísindastofnunar í gærkvöldi kom fram að á síðustu þremur vikum hafi rennslið minnkað. Það bendi það til þess að þrýstingur fari nú minnandi í kerfinu.

„Þetta gæti verið merki um að farið sé að síga á seinni hlutann í gosinu.  Of snemmt er þó að reyna að spá fyrir um hve lengi gosið muni standa,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar.

„Vangaveltur um mögulegan aðdraganda endalokanna koma í kjölfar þess að það náðist loksins að gera mælingu á hraunbreiðunni. Það hafði ekki verið gerð mæling í rúman mánuð. Það kemur í ljós núna að meðalflæðið hefur minnkað töluvert,“ segir Salóme.

Flæðið nú er að sögn Salóme á pari við það sem var í upphafi gossins. Tilgátur um að það nálgist lok gossins séu í raun aðeins vangaveltur. „Eins og með margt annað í þessu gosi, þá getur maður ekki endilega reitt sig á að það sé fyrirsjánlegt. Hegðunarmynstrið hefur verið frekar ófyrirsjánlegt,“ segir hún.

Samkvæmt mælingum Jarðvísindstofnunar er hraunið frá gosstöðvunum nú orðið 96 milljón rúmmetrar og flatarmálið tæpir 4 ferkílómetrar.

„Aukning í flatarmáli hefur verið mjög lítil síðustu þrjár vikur enda hefur hraunið að langmestu leyti safnast fyrir í Meradölum og í brekkunni vestan þeirra. Undafarnar tvær vikur hefur ekkert hraun runnið í Geldingadölum, Nátthaga og í Syðri Meradölum,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar.