Langvinnt borgarastríð hefur staðið yfir í Líbíu í Norður-Afríku allt frá árinu 2011 þegar fólk reis upp gegn einræðisherranum Muammar Gaddafi sem hafði kúgað landa sína í fjóra áratugi. Stuttu seinna skárust Bandaríkin og önnur NATO-ríki í leikinn. Eftir að Gaddafi var felldur hafa átök í landinu lagt það í rúst og þúsundir liggja í valnum.

Níu árum síðar er Líbía, með sínar 7 milljónir íbúa, enn undirlögð af stríðsátökum. Að Gaddafi gengnum tók Þjóðarráð Líbíu við völdum en náði ekki að stilla til friðar. Eftir kosningar árið 2012 náði annar flokkur, Almenna þjóðarráðið, meirihluta og myndaði ríkisstjórn sem entist til 2014. Nýkjörið þing flýði til borgarinnar Tóbrúk. Eftir sat forseti ráðsins í Trípólí.

Afleiðingin varð nær alger upplausn og stjórnleysi. Herforingjanum Khalifa Haftar, með talsverðum stuðningi frá almenningi, tókst að ná austurhluta landsins á skömmum tíma.

Frá árinu 2014 hafa í raun verið tvær ríkisstjórnir í landinu. Vestan megin er ríkisstjórn kennd við Almenna þjóðarráðið, í höfuðborginni Trípólí sem nýtur viðurkenningar Sameinuðu þjóðanna en var upphaflega með engan her. Í Tóbrúkborg í austurhlutanum er ríkisstjórn sem kennir sig við Fulltrúadeild og er stýrt af Haftar. Sterkur her hans hefur náð yfirráðum yfir langstærstum hluta landsins. Eftir margar mislukkaðar málamiðlanir hóf Haftar í apríl 2019 hernað gegn Trípólí og situr nú um borgina.

Fréttablaðið

Um hvað er barist?

Líbíu hefur lengst af verið skipt í þrjú svæði. Trípólítana í vestri er nefnt eftir borginni Trípólí og Kýrenækea að austan er nefnt eftir borginni Kýrenu. Bæði þessi svæði eru við Miðjarðarhafið og þar búa flestir. Þriðja héraðið, Fessan, er inni í landinu að suðri og vestri í þurri eyðimörkinni.

Líbíu var stýrt af Tyrkjum eða Ottómanveldinu frá 1551–1912, nær fjórar aldir. Áhrif þeirra eru enn talsverð. Tyrkneskir Líbíumenn telja allt að 1,4 milljónum íbúa og eru þriðji stærsti þjóðarhópurinn á eftir Aröbum og Berbum. Hinir tyrknesku forfeður hafa efalítið hjálpað Fayez al-Sarraj, núverandi forsætisráðherra í Trípólí, að fá liðsinni Tyrklands enda hefur Erdogan forseti ítrekað sagt það skyldu að hjálpa ættmennum Tyrkja í Líbíu.

Ítalir sem tóku við af Tyrkjaveldi árið 1912 með stofnun Ítölsku Norður-Afríku eiga einnig sterkar rætur í landinu. Frá árinu 1927 ráku þeir tvær nýlendur, Trípólítana að vestan og Kýrenækeu að austan. Árið 1934 voru þær síðan sameinaðar í eina nýlendu, Ítölsku Líbíu, sem var stýrt af hörku enda var andspyrna heimamanna sterk. Talið er að allt að fjórðungur íbúa Kýrenækeu hafi týnt lífi.

Árið 1951 lýsti Líbía yfir sjálfstæði með stofnun konungsríkis undir stjórn Idriss konungs. Uppgötvun mikilla olíulinda átta árum síðar varð til þess að landið auðgaðist mjög og átök hagsmunahópa jukust. Árið 1969 framdi Muammar Gaddafi valdarán og stofnaði alþýðulýðveldi í anda sósíalisma og alræðis.

Muammar Gaddafi forseti Líbíu frá 1969 til 2011 stjórnaði landinu með harðri hendi.
Nordicphotos/ AFP

Arabískt vorhret og bræðralagið

Að hluta til er borgarastyrjöldin endurtekning á svæðisbundinni valdabaráttu sem kom í kjölfar uppreisnar arabíska vorsins, sem Tyrkland og Katar studdu að hluta og lögðust þar með gegn Egyptalandi, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum (SAF). Með stuðningi ríkja á borð við Sádi-Arabíu og SAF hefur stjórnlyndum öflum vaxið ásmegin í ríkjum á borð við Egyptaland, Alsír og Súdan.

97 prósent Líbíumanna eru múslímskir súnnítar. Engu að síður spilar afstaða til trúmála inn í þessi átök. Bræðralag múslíma sem notið hefur meiri viðurkenningar vestan megin, er litið hornauga austan megin. Katar hefur stutt við Bræðralagið víða um lönd en andstæðingarnir austan megin og stuðningsþjóðir þeirra á borð við Sádi-Arabíu og SAF telja samtökin til hryðjuverkasamtaka.

Bræðralag múslíma vill koma á sjaríalögum og frelsa íslömsk ríki undan heimsvaldastefnu og sameina. Bræðralagið hefur haft bein og óbein áhrif á ýmsa íslamska vígahópa og hryðjuverkasamtök og er af mörgum talið hugmyndafræðilegur forveri íslamska ríkisins og al-Kaída. Þá voru hin herskáu palestínsku samtök Hamas upprunalega undirdeild bræðralagsins.

Borgarastyrjöldin hófst í kjölfar arabíska vorsins.
Fréttablaðið/GettyImages

Stærri ríki breiða út faðm sinn

Tyrkir hafa sent hermenn og ráðgjafa til Trípólí og nýverið samþykkti tyrkneska þingið að senda 2.000 manna herlið til að berjast í borgarastyrjöldinni. Þar á meðal eru Sham-vígasveitirnar í Sýrlandi sem tengdar eru Múslímska bræðralaginu og hinar illræmdu Sultan Murad-vígasveitir sýrlenskra Tyrkja.

Recep Erdogan, forseti Tyrkja, er ekki aðeins að hjálpa bandamanni í neyð, heldur einnig sjálfum sér. Efnahagur Tyrkja hefur síðustu tvö árin verið bágborinn og vinsældir Erdogan sjaldan minni. Þátttakan í Líbíu kann að afla honum meiri stuðnings. Hann hefur minnt landa sína á að sjálfur Ataturk, stofnandi nútíma Tyrklands, hafi barist í Líbíu á síðustu dögum Ottómanveldisins.

Á hinn bóginn hafa Rússar stutt Haftar með margvíslegum hætti. Hann nýtur til að mynda verulegs stuðnings málaliða frá ChVK Wagner en það er afar öflugt fyrirtæki sem starfar víða um heim, til að mynda í Sýrlandi, Mósambík, Súdan og Venesúela. Fyrirtækið er í eigu náins samstarfsmanns Pútíns og er af mörgum talið vera hluti af útþenslustefnu Rússa víða um heim. Fyrirtækið hefur nýtt samskiptamiðla á borð við Facebook til að dreifa rangupplýsingum um andstæðinga sína. Rússar eru sagðir hafa sett upp herstöðvar í borgunum Bengasi og Tóbrúk.

Stríðandi fylkingar munu halda til viðræðna í Berlín. Hér sést Fayez al-Sarraj, forsætisráðherra í Trípólí og Angela Merkel, Þýskalandskanslari.
Fréttablaðið/GettyImages

Olían öll

Inn í stríðsátökin blandast síðan gríðarlegir hagsmunir tengdir olíu- og gasvinnslu í landinu sem býr yfir stærstu þekktu olíulindum Afríku.

Um mitt ár 2018 gerði stærsta olíu- og gasfyrirtæki Ítalíu, ENI – sem gegnir lykilhlutverki við mótun ítalskrar utanríkisstefnu – víðtækan samstarfssamning við ríkisolíufélagið í Trípólí.

Þá hafa Tyrkir stutt ríkisstjórnina í Trípólí gegn nýlegum samningum um gasvinnslu í landhelgi Líbíu.

Á sama tíma hefur ríkisstjórnin í Trípólí afturkallað starfsleyfi franska olíufélagsins Total. Það er vegna stuðnings Frakka við Haftar sem hefur nú náð yfirráðum yfir nær allri olíuvinnslu landsins. Hann hefur yfir frönskum herþotum að ráða, sem franskmenntaðir flugmenn SAF fljúga.

Hörmulegt ástand flóttamanna

Til að auka enn á hörmulegt stríðsástandið eru miklir fólksflutningar frá Afríku og Miðausturlöndum. Þúsundir flóttamanna á leið sinni norður verða fyrir misþyrmingum og ofbeldi og eru margir strandaglópar neyddir til að þola ómannúðlegar aðstæður í varðhaldi. Talið er að í landinu séu meira en 636 þúsund innflytjendur og flóttamenn, þar af um 6 þúsund í haldi í umdeildum búðum.

Leitað sátta í París milli stríðandi fylkinga: Fayez al-Sarraj, núverandi forsætisráðherra í Trípólí, Emmanuel Macron forseti Frakklands og herforinginn Khalifa Haftar.
Nordicphotos/ Getty Images

Pólitísk lausn eða hernaðarleg?

Síðustu fjögur ár hafa SÞ lagt í mikla vinnu til að leiða borgarastyrjöldina til friðsamlegra lykta. Þrátt fyrir að herforinginn Haftar sé kominn með sveitir sínar nálægt miðborg Trípólí, leita fulltrúar SÞ enn pólitískra lausna.

Ýmsar friðarviðræður hafa verið í gangi milli stríðandi fylkinga. Í þessari viku reyndu Pútín og Erdogan að miðla málum í Moskvu en ekkert gekk.

Nýjasta útspilið er leiðtogafundur um Líbíu sem haldinn verður í Berlín á sunnudag. Þar munu Þjóðverjar undir forystu Angelu Merkel reyna að sannfæra stríðandi fylkingar um vopnahlé. Auk þeirra munu mæta þangað fulltrúar frá Bretlandi, Tyrklandi, Rússlandi, Frakklandi, Ítalíu, Egyptalandi og SAF. Auk þeirra verða þar fulltrúar Evrópusambandsins, Arababandalagsins og fleiri.

Staða Haftar hefur styrkst gagnvart þjóðarráðinu í Trípólí. Hann býr yfir mun meira hervaldi, hefur náð stærstum hluta landsins undir sig ásamt mikilvægri olíuframleiðslu. Hann er nokkrum kílómetrum frá miðborg Trípólí. Stuðningur við stjórn Haftar virðist mörgum því vera eina leiðin til að sameina vestur- og austurhluta Líbíu á ný og koma á stöðugleika. Það gæti verið upptaktur að því að hinn sterki stýri landinu af hörku. Sú sviðsmynd er hins vegar ekki góð fyrir þegar hrjáðan almenning í landinu.

Útifundur á Torgi píslarvottanna í Tripólí borg til stuðnings ríkisstjórninni þar í borg.
Nordicphotos/ Getty Images

Hver styður hvern í stríðinu í Líbíu?

Margir telja Sameinuðu arabísku furstadæmin til helstu stuðningsmanna Haftar og liðssveita hans, Líbíska þjóðarhersins. Þau vilja hefta útbreiðslu pólitísks íslams, einkum Bræðralags múslíma, en lýðræði er þeim ekki að skapi. SAF hafa útvegað Haftar háþróað vopnakerfi og veitt honum margvíslegan herstuðning

Líkt og furstadæmin hafa Egyptar, undir stjórn Abdel Fattah el-Sisi forseta, andúð á Múslímska bræðralaginu og vilja varast lýðræðislega þróun. Stuðningur hinna auðugu Persaflóaríkja, hernaðarlegur bakgrunnur og geta hans til að ná stjórn á vígahópum í strjálbýlum eyðimerkurhluta Líbíu skiptir Egypta miklu.

Þrátt fyrir að hafa stutt viðleitni til friðsamlegrar lausnar hafa Frakkar stutt Haftar, meðal annars með því að koma í veg fyrir ályktanir ESB gegn honum. Árið 2016 féllu þrír franskir hermenn í leynilegri aðgerð í landinu, eldflaugar sem tilheyra Frökkum hafa fundist og Túnisar hafa stöðvað vopnaðar sveitir franskra ríkisborgara á landamærunum.

Þótt Rússar hafi sagst styðja friðsamlega viðleitni í Líbíu hafa þeir komið í veg fyrir yfirlýsingu Öryggisráðs SÞ um að stöðva framgang Haftar. Rússar neita því að styðja hann en rússneskir málaliðar frá einkafyrirtækinu ChVK Wagner, sem tengist stjórnvöldum í Moskvu, hafa barist dyggilega með herjum Haftar.

Liðsmenn Khalifa Haftar frá Líbíska þjóðarhernum útskrifast hér úr herskóla Bengasi borgar í april árið 2019.
Nordicphotos/ AFP

Bandaríkin hafa stutt viðleitni SÞ en Donald Trump hefur sagst ekki vilja frekari afskipti af Líbíu. Það kann að hafa breyst með styrkri stöðu Haftar, enda hefur Trump hrósað honum í baráttunni gegn hryðjuverkum og því að tryggja olíulindir. Bandaríkin hafa beitt neitunarvaldi í Öryggisráðinu gegn ályktunum þar sem loftárásir SAF á miðstöð innflytjenda voru fordæmdar.

Sádi-Arabar styðja dyggilega við Haftar sem hefur verið tíður gestur þeirra í Ríad. Líkt og furstadæmin vilja þeir hefta framgang Múslímska bræðralagsins og uppgang Sjíta.

SÞ hafa hafa sakað Súdan um að brjóta gegn þvingunaraðgerðum með því að senda þúsundir hermanna til Líbíu til að berjast með Haftar.

Líkt og SAF hafa Jórdanir stutt Haftar. SÞ hefur sakað þá um að brjóta gegn refsiaðgerðum með því að senda Haftar brynvarða flutningabíla.

Tyrkir hafa verið einn fremsti stuðningsaðili ríkisstjórnarinnar í Trípólí. Þeir hafa veitt margvíslega hernaðaraðstoð og samþykktu nýverið að senda herlið til landsins til „að styðja lögmæta ríkisstjórn og forðast mannlegan harmleik“. Þar á meðal voru liðsmenn hinnar alræmdu Sultan Murad-vígasveitar sýrlenskra Tyrkja.

Katar styður einnig ríkisstjórnina í Trípólí enda umburðarlyndari gagnvart Bræðralagi múslíma og íslömskum siðum. Eftir að hafa tekið þátt í að koma Gaddafi frá völdum 2011 hefur Katar takmarkað stuðning sinn með diplómatískum hætti.

Ítalir hafa reynt að halda hlutleysi í borgarastríðinu og stutt aðgerðir SÞ og þar með ríkisstjórnina í Trípólí. Þeir hafa talað fyrir alhliða friðarferli en hafa áhyggjur af aðstöðu ítalska olíurisans ENI og telja stuðning Frakka við Haftar ógna því.

Að endingu er rétt að nefna Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið sem viðurkenna og styðja ríkisstjórnina í Trípólí með margvíslegum hætti.

Hinn 76 ára gamli hershöfðingi Khalifa Belqasim Haftar þykir torræður, strangur og hrifinn af hönnun eigin einkennisbúninga.
Nordicphotos/ Getty Images

Hver er herforinginn Haftar?

Hinn 76 ára gamli hershöfðingi Khalifa Belqasim Haftar þykir torræður, strangur og hrifinn af hönnun eigin einkennisbúninga. Sem yfirmaður Líbíska þjóðarhersins hefur hann frá maí 2019 leitt meginfylkinguna í borgarastyrjöld landsins.

Haftar fæddist í borginni Ajdabiya í austurhluta Líbíu. Eftir herskóla og framhaldsnám í sovéskum og egypskum herskólum náði hann miklum frama í Líbíuher og tók þátt í valdaráni Muammar Gaddafi árið 1969.

Árið 1987 varð Haftar stríðsfangi í herför Líbíu gegn nágrannaríkinu Tjad. Gaddafi afneitaði honum þá.

Árið 1990 var Haftar sleppt úr haldi með aðstoð Bandaríkjastjórnar og bjó næstu tvo áratugi í Langley, í Virginíufylki í Bandaríkjunum, þar sem hann öðlaðist bandarískan ríkisborgararétt. Hann varði næstu tveimur áratugum í að vinna gegn Gaddafi. Heimili hans var steinsnar frá höfuðstöðvum Leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA.

Haftar var háttsettur í þeim hersveitunum sem felldu loks Gaddafi árið 2011. Tveimur árum síðar varð hann yfirmaður líbíska hersins. Innanlandsátök þróuðust síðan í borgarastríð þar sem Haftar leiddi aðra fylkinguna.

Haftar er sex barna faðir og talar, auk arabísku, ensku, ítölsku, rússnesku og frönsku. Honum er lýst sem miklum andstæðingi trúarofstækis og rétttrúnaðar múslíma.