„Við getum ekki veitt meiri upplýsingar en fram hafa komið,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, í samtali við Fréttablaðið, um rannsókn lögreglunnar á skipulagðri hryðjuverkaárás og umfangsmikilli vopnaframleiðslu. Tveir eru í haldi lögreglunnar. Annar í viku og hinn í tvær vikur.

Karl Steinar segir að lögreglan sé á fullu að vinna í þeim gögnum sem hafa verið haldlögð í málinu.

„Rannsóknin er á fullu. Við höfum mjög skamman tíma og viðbrögðin okkar markast af því,“ segir Karl Steinar og að lögreglan standi enn við að þau telji sig hafa afstýrt því sem mennirnir höfðu planað.

Hann segir að sakborningarnir báðir séu í einangrun og að það sé mikilvægt að lögreglan geti borið undir þá það sem hún rannsakar.

„Þetta snýst um að framfylgja þeim réttarreglum sem gilda um handtekið fólk, hvernig við vinnum. Eins og stendur er ekki aukin hætta fyrir fólk á Íslandi, eftir aðgerðirnar sem við fórum í,“ segir Karl Steinar.

Hann segir að fólk verði upplýst síðar nánar um málið og rannsókn málsins en að það standi ekki til að gera það um helgina.

„Við gerum örugglega betur grein fyrir þessu þegar líður á næstu viku.“

Spurður hvort að sá knappi tími sem lögreglan talar um markist af þeirri viku sem annar maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald segir Karl Steinar það ekki vera svo. Þetta sé einfaldlega ákvörðun lögreglunnar.

Spurður hvort að lögreglan ætli að fara fram á lengra gæsluvarðhald segist hann ekki geta svarað því og að það sé í raun aldrei hægt að svara því fyrr en skömmu áður en úrskurður rennur út.

„Það er engin ákvörðun sem liggur fyrir í því.“