Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann myndi beita Íran nýjum viðskiptaþvingunum. Að því er kom fram í tilkynningu bandaríska fjármálaráðuneytisins beinast þessar nýju þvinganir gegn átta hátt settum stjórnendum írönsku Byltingarvarðasveitarinnar (IRGC).

Einnig verður hert að írönskum stjórnmálamönnum. Þvinganirnar beinast til að mynda sérstaklega gegn embætti æðstaklerksins Ali Khamenei. Þá verður þvingunum beitt gegn utanríkisráðherra Írans síðar í vikunni. „Við munum halda áfram að auka þrýstinginn á Teheran. Íran má aldrei eignast kjarnorkuvopn,“ sagði Trump.

Drónar og árásir

Togstreitan á milli Írans og Bandaríkjanna hefur aukist mikið undanfarnar vikur. Bandaríkin hafa kennt Írönum um árásir á olíuflutningaskip á Ómanflóa, sem Íranar neita. Þá hafa ríkin deilt um hvort bandarískur dróni sem Íranar skutu niður hafi verið innan íranskrar lofthelgi eða ekki.

Síðasta fimmtudag, rétt eftir drónaskotið, gerði bandaríski herinn tölvuárás á íranska leyniþjónustustofnun sem Bandaríkjamenn telja ábyrga fyrir árásunum á olíuflutningaskipin. Samkvæmt The New York Times var eldflaugaskotkerfi Írans einnig tekið niður í stafrænu árásinni. Trump hafði þennan sama dag heimilað en síðan afturkallað heimild til beinnar árásar á írönsk hernaðarskotmörk.

Steve Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að þvinganirnar sem nú á að beita hafi verið á dagskrá áður en dróninn var skotinn niður.

Versnandi samband

Samband þessara tveggja ríkja hefur raunar farið versnandi lengi, eða allt frá því Trump tók við embætti. Hann ræddi ítrekað um í kosningabaráttunni 2016 að hann ætlaði sér að rifta nýgerðum samningi Írans, Bandaríkjanna, Kína, Frakklands, Þýskalands, ESB, Rússlands og Bretlands (JCPOA). Samningurinn snerist í grunninn um að þvingunum yrði aflétt gegn því að Íran frysti kjarnorkuáætlun sína.

Trump stóð við loforðið, rifti samningnum af hálfu Bandaríkjanna og fór að beita þvingunum á ný. Íranar og aðrir aðilar að samkomulaginu lýstu yfir óánægju sinni með ákvörðun Bandaríkjaforsetans en reyndu þó að halda lífi í samkomulaginu.

Þetta breyttist ári eftir riftun, eða í maí síðastliðnum, þegar Hassan Rouhani Íransforseti tilkynnti að Íran hefði hætt að framfylgja samningnum. Nú myndi Íran halda auðguðu úrani í stað þess að selja það úr landi, eins og kveðið er á um í samningnum, nema aðrir samningsaðilar vernduðu Íran gegn bandarísku þvingununum.

Þær þvinganir sem Trump-stjórnin hefur beitt Íran hafa gert það að verkum að erlendir fjárfestar sýna landinu engan áhuga og þá hafa þær einnig bitnað á olíuútflutningi, samkvæmt því sem kom fram í umfjöllun BBC í gær. Þar sagði enn fremur að þessi áhrif leiddu til skorts á innfluttum vörum og að verðlag hafi hækkað mjög.