Ferðalög á milli landa eru að færast í eðlilegra horf eftir að tæplega helmingur heimsbyggðarinnar hefur fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni gegn Covid-19. Um 108 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í nýliðnum september en í sama mánuði í fyrra voru þeir rétt um tíu þúsund.

Allir farþegar sem koma til Íslands þurfa að sýna vottorð um bólusetningu eða vottorð um fyrri sýkingu af Covid-19 við landamærin til að komast inn í landið ásamt neikvæðu PCR-prófi eða hraðprófi.

Þau sem ekki hafa fengið bólusetningu þurfa að sýna neikvætt PCR-próf eða hraðpróf líkt og allir aðrir farþegar. Prófið skal hafa verið tekið innan við 72 tímum fyrir brottför á fyrsta legg ferðar en sé vottorði ekki framvísað á landamærunum liggur við því 100.000 króna sekt.

Þau sem ferðast til Bretlands frá Íslandi þurfa ekki að framvísa neikvæðu Covid-vottorði en hins vegar þarf að bóka svokallað Day 2 test og án staðfestingarnúmers af slíku prófi er ekki hægt að klára forskráningu. Einstaklingar sem ferðast til Bretlands þurfa að skrá sig á vef breska innanríkisráðuneytisins 48 tímum fyrir brottför. Framvísa þarf bólusetningarvottorði við komuna til landsins en ekki eru tekin gild vottorð um fyrri smit eða mótefni.

Öllum farþegum sem ferðast til Ítalíu ber að forskrá sig áður en lagt er af stað til landsins. Á Ítalíu er Ísland nú sett í flokk C sem þýðir að farþegar sem héðan koma þurfa ekki að sæta neinum sóttvörnum á landamærunum. Í lestum, ferjum og skipum, sem og á veitingastöðum, börum og þegar farið er inn í stórar verslunarmiðstöðvar þarf að sýna svokallaðan Green pass á Ítalíu. Það er staðfesting á fyrri Covid-sýkingu, bólusetningu eða neikvæðu Covid-prófi sem er ekki eldra en 48 tíma gamalt.

Íslendingum sem ferðast til Spánar ber að sýna vottorð á landamærum sem sýnir fram á bólusetningu, neikvæða niðurstöðu úr Covid-prófi eða vottorð um fyrri Covid-sýkingu.

Bólusettir farþegar sem ferðast frá Íslandi til Danmerkur þurfa ekki að sæta neinum sóttvörnum á landamærum, þeir sem eru óbólusettir skulu sýna neikvætt próf sem ekki er eldra en 24 tíma gamalt. Hvorki í Noregi né Svíþjóð þurfa ferðamenn frá Íslandi að sæta sóttvörnum á landamærum.

Nú er gildandi ferðabann til Bandaríkjanna fyrir ferðamenn sem koma frá Schengen-svæðinu, Bretlandi og Írlandi, þó með örfáum undantekningum. Allir flugfarþegar sem ferðast til Bandaríkjanna þurfa að hafa undir höndum neikvæðar niðurstöður úr Covid-prófi. Þessi regla gildir fyrir alla sem fljúga til Bandaríkjanna, jafnvel þá sem eru bólusettir. Einungis þeir sem geta sýnt fram á að hafa náð sér eftir Covid-19 sýkingu eru undanþegnir þessum reglum.

Frá og með 8. nóvember breytast reglur á landamærum Bandaríkjanna og verður þess þá krafist að allir ferðamenn sýni bólusetningarvottorð við komuna til landsins. Tekin eru gild bóluefni Pfizer, Moderna og Jansen.

Einnig eru tekin gild bóluefni frá AstraZeneca, Covishield, BIBP/Sinopharm og Sinovac.

Fréttin hefur verið uppfærð.