Ríflega 360 manns eru skráðir í árlegt inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði við Læknadeild Háskóla Íslands sem fer fram í dag og á morgun.

Í fyrsta sinn fer prófahaldið alfarið fram rafrænt í fjórum byggingum Háskólans: Háskólatorgi, Árnagarði, Eirbergi og Aðalbyggingu.

Alls 295 munu þreyta inntökuprófið í læknisfræði en það er fækkun um 38 manns frá því í fyrra. Þá munu 68 þreyta inntökupróf í sjúkraþjálfunarfræði sem er 14 færri en í fyrra.

Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best á prófinu eiga kost á að hefja nám.

Fjöldi þeirra sem er veitt innganga miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda.

Í læknisfræði verða 60 nemendur teknir inn og 35 í sjúkraþjálfunarfræði.

„Allir þátttakendur þreyta prófið í prófakerfinu Inspera og geta ýmist nýtt eigin tölvur eða tölvur sem Háskóli Íslands lánar þeim til próftöku.

Þetta í fyrsta sinn sem fyrirkomulag inntökuprófa er með þessum hætti en Háskóli Íslands hefur notað Inspera-kerfið við rafrænt prófahald í skólanum undanfarin misseri með góðum árangri.

Inntökuprófið tekur tvo daga líkt og áður og í því eru sex tveggja tíma próflotur,“ segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.