Enn hefur ekki náðst samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um skil á vegum sem tilheyra ekki stofnvegakerfinu. Það er hvaða vegir þetta verða, hvernig ástandi Vegagerðin skili þeim í og hvaða fjármagn eigi að fylgja til að reka þá.

„Viðræðurnar eru enn í gangi en fresturinn er að renna frá okkur,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH

Málið á sér langan aðdraganda. Árið 2007 var lögum breytt þannig að sumir vegir yrðu sveitarfélagavegir, en það hefur ekki komið til framkvæmda. Var þessu mótmælt af hálfu sveitarfélaganna á sínum tíma því að kostnaðarmat lá ekki fyrir. Árið 2014 var gefinn frestur til ársloka 2019 til að klára viðræðurnar. Í fyrra var fresturinn framlengdur til næstkomandi áramóta.

„Það er ekki í hendi að sveitarfélögin hafi tekjustofna til að reka þessa vegi til framtíðar,“ segir Páll en sveitarfélögin glíma við mikinn rekstrarhalla vegna faraldursins.

Enn liggi ástand veganna ekki fyrir en von er á skýrslu um það. Þá sé ekki enn komið á hreint nákvæmlega hvaða vegum verði skilað. Sem dæmi um þá vegi sem um ræðir má nefna Hallsveg í Grafarvogi, Strandgötuna í Hafnarfirði og hugsanlega Nýbýlaveginn í Kópavogi. Alls eru þetta í kringum 70 kílómetrar af vegum sem um ræðir, sumum mjög umferðarþungum og með mikinn viðhaldskostnað.