„Að það taki hæstvirtan heilbrigðisráðherra viku að skila skýrslu úr prófarkalestri, eykur ekki traust og trúverðugleika á því að umrædd skýrsla sé skrifuð þannig að hún sé óháð og lýsi stöðunni eins og hún raunverulega er, sagði Helga Vala Helgadóttir, fomaður velferðarnefndar Alþingi á þingfundi í dag. Nefndin hefur að sögn Helgu Völu margsinnis beðið ráðherra að koma á fund nefndarinnar án árangurs.

Fram kom á Alþingi á mánudag að skýrsla um breytt fyrirkomulag leghálsskimana myndi berast daginn eftir. Skýrslan hefur þó ekki enn birst og er enn í prófarkalestri og frágangi. Fjórtán vikur eru síðan 26 þingmenn báðu um óháða skýrslu um málið.

„Ég er sannfærður um að bæði þingmenn og almenningur allur mun alveg sjái í gegnum fingur við ráðherra, þó slæðast inn einhverjar stafsetningarvillur inn með skýrslunni,“ sagði Logi Einarsson, Samfylkingu.

Heilbrigðisráðherra hefur verið harðlega gagnrýnd bæði innan- og utan Alþingis fyrir framkvæmd breytinganna.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Viðreisn tók einnig til máls. „Við höfum fengið upplýsingar um það að skýrsla sem varðar grundvallar heilbrigðisþjónustu kvenna sé væntanleg, hún sé væntanleg þennan daginn eða hinn daginn og aldrei kemur skýrslan og ég velti því fyrir mér hvers vegna svo sé. Ég veit að skýrslan er tilbúin. Niðurstöðurnar liggja fyrir og ég veit að þetta eru svör sem konur vilja heyra,“ sagði hún. „Þessi svör þau liggja fyrir í heilbrigðisráðuneytinu því svörin snúast um forsendur heilbrigðisráðherra sjálfs. Hún þekki svörin. Það hefði ekki þurft að taka 14 vikur að koma þessum upplýsingum til þingsins“, bætti hún við.

Þorbjörg Sigríður og Helga Vala hafa tekið margoft til máls vegna málsins
Fréttablaðið/Samsett mynd/Ernir/Sigtryggur Ari

Beiðni um skýrsluna sneri að forsendum og undirbúningi færslu leghálsskimana frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu um síðust áramót og flutning úrvinnslu sýna frá félaginu til Danmerkur. Fjölmargar konur hafa sagt farir sínar ekki sléttar í nýju kerfi og er bið eftir niðurstöðum sýna löng, sýnatöku hefur þurft að endurtaka og upplýsingar til kvennanna ábótavant miðað við margar frásagnir sem birtast á facebook síðunni "Aðför að heilsu kvenna".

Konur hafa sent bréf til Umboðsmanns Alþingis vegna meðferð mála sinna og benti Anna Kolbrún Árnadóttir Miðflokki á að ekki sé hægt að taka mál þeirra fyrir fyrr en umrædd skýrsla liggi fyrir.

Helga Vala sakaði ráðherra um að ætla að forðast að ræða skýrsluna á Alþingi: „Það er verið að vonast til þess að þingið verði farið heim þegar skýrslan er komin. Það er bara þannig".