Reykjavíkurborg bíður enn svara Landlæknis um leyfi til að reka neyslurými í borginni fyrir fíkniefnaneytendur. Lög sem heimila sveitarfélögum að reka neyslurými voru samþykkt á Alþingi í fyrra vor en í reglugerð frá því í febrúar sl. skal sækja um leyfi til Landslæknis.

Þá strax sendi velferðaráðs Reykjavíkur Landlækni ósk um að reka neyslurými fyrir fíkniefnaneytendur í gistiskýlum í borginni og einnig var sótt um að nota eldri bíl Frú Ragnheiðar frá Rauða krossinum í slíkt. Enn hefur ekkert svar borist, segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðaráðs og verkefnið í biðstöðu.

Um er að ræða að koma upp neyslurýmum í neyðarskýlunum við Lindargötu, á Granda og í Konukoti en einnig er neyðarskýli rekið tímabundið í Skipholti vegna Covid og þar yrði sett upp neyslurými líka, ef leyfi fæst. Að sögn Heiðu Bjargar er þó leitað að öðru húsnæði til framtíðar.

Minnka skaðann

Talið er að um 700 einstaklingar sprauti sig með vímuefnum í æð á Íslandi. Neyslurýmin eru ætluð, átján ára og eldri, einkum þeim verst stöddu. Markmiðið er að minnka skaðann sem neyslunni fylgir, færri sprautunálar yrðu á almannafæri og færri HIV- og lifrarbólgusmit.

Áform um neyslurými hafa verið uppi í vel yfir tvö ár.

Fólkið myndi í þessum rýmum nálgast hreinan búnað, næringu, hreinlætisaðstöðu, fatnað og hreint og örugg skjól. Gert er ráð fyrir að 25-40 manns myndu nýta neyslurýmin miðað við reynslu í nágrannalöndunum.

Heiða Björg segir nú að heilbrigðisráðherra hafi óformlega sagst hafa fjármagn allt að 50 milljón króna til að fjármagna þetta með borginni. "Svo við bíðum næstu skrefa frá landlækni og höldum áfram að leita að húsnæði," segir Heiða.