Belgía

Enn elda Merkel og Trump grátt silfur

Leiðtogar Þjóðverja og Bandaríkjamanna í hár saman vegna útgjalda til varnarmála og meintra ítaka Rússa í Þýskalandi. Forseti Bandaríkjanna segir Þjóðverja „fanga“ Rússa en Þýskalandskanslari blæs á slíkan málflutning. Ekki í fyrsta skipti sem leiðtogarnir deila.

Angela Merkel og Donald Trump funduðu í gær. NordicPhotos/Getty

Gærdagurinn á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel markaðist af orðaskiptum Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Trump hafði gefið tóninn fyrir fundinn, sagt að önnur bandalagsríki þyrftu að hysja upp um sig buxurnar þegar kemur að útgjöldum til varnarmála. Sendi öðrum bandalagsríkjum til að mynda bréf þar sem minnt var sérstaklega á samþykkt frá árinu 2014 um að tvö prósent af landsframleiðslu hvers ríkis skyldu renna til varnarmála á hverju ári í síðasta lagi árið 2024.

Í gær sneri forsetinn sér hins vegar að öðru máli. „Ef maður skoðar málið sér maður að Þýskaland er fangi Rússlands. Af því að þeir [Rússar] útvega, þeir [Þjóðverjar] losuðu sig við kolaverin, kjarnorkuverin. Þeir eru að fá svo mikið af olíu og gasi frá Rússlandi. Ég held að þetta sé eitthvað sem NATO þarf að skoða. Mér finnst þetta óviðeigandi. Við erum sammála um að þetta er óviðeigandi. Ég veit ekki hvað er hægt að gera núna en það er ekkert vit í því að þeir borgi Rússum milljarða en að við þurfum núna að verja þá fyrir Rússum,“ sagði Trump við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.

Samkvæmt tölum Evrópusambandsins er hlutfall rússnesks gass í Þýskalandi á milli 50 og 75 prósent en gas sér Þjóðverjum fyrir um 20 prósent af orkuþörf. Um 40 prósent þýskrar orku koma aftur á móti úr kolabrennslu. Þá hafa Þjóðverjar jafnframt lýst yfir stuðningi við smíði nýrrar leiðslu í Eystrasaltinu sem mun auka flæði rússnesks gass til Evrópusambandsríkja.

Útgjaldamálin voru forsetanum þó enn ofarlega í huga. Sagði hann Þjóðverja verja „rétt rúmlega einu prósenti“ í varnarmál samanborið við 4,2 prósent Bandaríkjamanna „ef miðað er við raunverulegar tölur“. Þjóðverjar gerðu sem sagt of lítið fyrir bandalagið. Óvíst er til hvaða talna forsetinn var að vísa en í yfirlýsingu sem NATO birti á þriðjudag segir að Þjóðverjar verji 1,24 prósentum landsframleiðslu í varnarmál og Bandaríkjamenn 3,5 prósentum.

Ekki væri nógu gott að Þjóðverjar mættu þessu viðmiði árið 2030, eins og stjórnvöld í Berlín áforma. „Þau gætu gert þetta strax á morgun,“ sagði Trump.

Merkel svaraði fyrir sig og neitaði því staðfastlega að Rússar stýrðu Þýskalandi á bak við tjöldin. „Ég hef sjálf upplifað hvernig Þýskaland var undir stjórn Sovétríkjanna. Í dag gleður það mig mjög að við séum sameinuð og frjáls. Þess vegna getum við fullyrt að við smíðum okkar stefnur sjálf og tökum sjálfstæðar ákvarðanir. Það er afar gott, sérstaklega fyrir Austur-Þjóðverja,“ sagði kanslarinn.

Angela sagði ríki sitt gera mikið fyrir NATO. „Við útvegum næstflesta hermenn, meginþorri hernaðarafls okkar stendur NATO til boða og fram til dagsins í dag höfum við lagt mikið af mörkum í Afganistan. Með til dæmis þessu erum við að verja hagsmuni Bandaríkjanna.“

Trump og Merkel funduðu síðan saman síðar um daginn. Sagði Trump við fjölmiðla eftir fundinn að útgjaldamálið sem og hin fyrirhugaða gasleiðsla hefðu verið á meðal umræðuefna. Merkel sagðist hafa rætt málefni flóttamanna og fríverslunarmál við forsetann. Sagðist hún jafnframt hlakka til frekari viðræðna.

Ekki fyrsta rifrildið

Trump og Merkel hafa áður átt í útistöðum. Nú síðast í júní á og eftir fund G7-ríkjanna. Sá fundur leystist svo gott sem upp í glundroða eftir harðvítugar deilur um tollamál.

„Stundum finnst mér eins og Bandaríkjaforseti trúi því staðfastlega að það verði alltaf einhver að vinna og annar að tapa,“ sagði Merkel í viðstali við Das Erste eftir fundinn og bætti því við að sjálf tryði hún að hægt væri að koma á fyrirkomulagi þar sem báðir aðilar græddu.

Í viðtali við ARD sagði hún svo að ákvörðun Trumps um að draga til baka stuðning sinn við sameiginlega yfirlýsingu G7-leiðtoga væri niðurdrepandi. „Þetta er erfitt, og niðurdrepandi eins og er, en engin endalok. Ég vil ekki að við höldum áfram að auka á togstreituna.“

Andúð Trumps á kanslaranum nær hins vegar langt aftur fyrir áramót. Árið 2015, eftir að Time útnefndi Merkel mann ársins, tísti Trump til að mynda:

„Ég sagði ykkur að Time myndi aldrei velja mig þrátt fyrir að ég væri talinn líklegastur. Þau völdu manneskjuna sem er að eyðileggja Þýskaland.“

Andúðin nær hins vegar ekki lengra en til 2013. Í október það ár tísti Trump: „Angela Merkel stendur sig frábærlega sem kanslari Þýskalands.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Belgía

Lögðu hald á 58 verk eftir Bank­sy

Belgía

Sárnar ummæli Breta

Belgía

Átta ára á leið í há­skóla

Auglýsing

Nýjast

Á­rásar­maðurinn myrti fimm manns á vinnu­stað í Illin­ois í gær

Fór illa út úr hruninu en vann 45 milljónir í vikunni

Reyndi að borða flug­miðann sinn

Fínt vetrar­veður fram eftir degi en hvessir í kvöld

Leiðar­vísir að Kata­lóna­réttar­höldunum

Réðist á gesti og starfs­fólk

Auglýsing