Enn hefur ekkert spurst til hennar 18 ára gömlu Telmu Lífar Ingadóttur sem hvarf á Spáni í gær. Stjúpmóðir Telmu, Guðbjörg Gunnlaugsdóttir, segir í samtali við Fréttablaðið að hún og maður hennar, faðir Telmu, Ingi Karl Sigríðarson, séu nú stödd á Benidorm við leit.
„Eins og er höfum við ekkert frétt. Við erum á Benidorm núna og erum með mynd af henni að ganga á milli svæða og leita,“ segir Guðbjörg en að það hafi verið sendar út tilkynningar vegna hvarfsins.
Hún segir að þau séu stödd heima hjá Telmu Líf og að þau séu að ræða við nágranna hennar um hvort þau hafi séð hana.
Gekk út af spítalanum og skildi dótið eftir
Greint var frá því í gær að síðast hafi sést til Telmu Lífar þegar hún gekk út af af Villajosa spítala klukkan hálf sex um morguninn. Hringt var í foreldra hennar frá spítalanum um klukkan 11 en dótið hennar hafði fundist þar en ekki hún.
„Við vitum að hún fannst á Benidorm og vegna þess að hún er 18 ára var ekki haft samband við okkur, heldur farið með hana á spítalann. Svo hringir spítalinn þegar þau fundu dótið hennar með miða með símanúmerinu mínu,“ sagði Ingi Karl í samtali við Fréttablaðið í gær.
Telma Líf hefur búið ein á Benidorm í nokkrar vikur en foreldra hennar búa í smábæ nærri Benidorm. Telma talar spænsku og þýsku og er reiprennandi í ensku.
Málið er á borði borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og lögreglunnar á Spáni. Ef einhver hefur upplýsingar um það hvar Telma Líf er er hægt að hafa samband við Guðbjörgu eða Inga Karl eða lögregluna á Spáni.
Telma Líf er líklega klædd í svartan skokk, svört lág leðurstígvél og bleikan leðurjakka. Hún er 170 cm á hæð, um 65 til 70 kíló. Hún er með blá augu og fjólublátt/plómulitað hár sem er rakað á hliðunum.