Enn hefur ekkert spurst til hennar 18 ára gömlu Telmu Lífar Inga­dóttur sem hvarf á Spáni í gær. Stjúp­móðir Telmu, Guð­björg Gunnlaugsdóttir, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hún og maður hennar, faðir Telmu, Ingi Karl Sig­ríðar­son, séu nú stödd á Benidorm við leit.

„Eins og er höfum við ekkert frétt. Við erum á Benidorm núna og erum með mynd af henni að ganga á milli svæða og leita,“ segir Guð­björg en að það hafi verið sendar út til­kynningar vegna hvarfsins.

Hún segir að þau séu stödd heima hjá Telmu Líf og að þau séu að ræða við ná­granna hennar um hvort þau hafi séð hana.

Gekk út af spítalanum og skildi dótið eftir

Greint var frá því í gær að síðast hafi sést til Telmu Lífar þegar hún gekk út af af Villa­josa spítala klukkan hálf sex um morguninn. Hringt var í for­eldra hennar frá spítalanum um klukkan 11 en dótið hennar hafði fundist þar en ekki hún.

„Við vitum að hún fannst á Benidorm og vegna þess að hún er 18 ára var ekki haft sam­band við okkur, heldur farið með hana á spítalann. Svo hringir spítalinn þegar þau fundu dótið hennar með miða með síma­númerinu mínu,“ sagði Ingi Karl í sam­tali við Frétta­blaðið í gær.

Telma Líf hefur búið ein á Benidorm í nokkrar vikur en for­eldra hennar búa í smá­bæ nærri Benidorm. Telma talar spænsku og þýsku og er reip­rennandi í ensku.

Málið er á borði borgara­þjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins og lög­reglunnar á Spáni. Ef ein­hver hefur upp­lýsingar um það hvar Telma Líf er er hægt að hafa sam­band við Guð­björgu eða Inga Karl eða lög­regluna á Spáni.

Telma Líf er lík­lega klædd í svartan skokk, svört lág leður­stíg­vél og bleikan leður­jakka. Hún er 170 cm á hæð, um 65 til 70 kíló. Hún er með blá augu og fjólu­blátt/plóm­u­litað hár sem er rakað á hliðunum.