Enn eitt metið féll á fast­eigna­markaði á höfuð­borgar­svæðinu í nóvember þegar 43,6% allra seldra í­búða seldust yfir á­settu verði. Í októ­ber var þetta sama hlut­fall 41,1% og árin 2018 til 2019 var það að jafnaði 7 til 15%.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðar­skýrslu hag­deildar Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunar, en skýrslan inni­heldur öll helstu tíðindi er varða fast­eigna­markaðinn á Ís­landi.

Það er víðar en á höfuð­borgar­svæðinu sem met eru slegin því 26,9% í­búða hjá ná­granna­sveitar­fé­lögum höfuð­borgar­svæðisins seldust yfir á­settu verði í nóvember. Hlut­fallið var tæp 17% í októ­ber og rúm 21% í septem­ber.

Í fyrsta sinn síðan sumarið 2016 var hærra hlut­fall í­búða í fjöl­býli sem seldist yfir á­settu verði á höfuð­borgar­svæðinu eða 42,2% saman­borið við 41,4% meðal sér­býla. Minni í­búðir, 0-2 her­bergja, seldust í 49% til­fella yfir á­settu verði í nóvember en í októ­ber var hlut­fallið 42%.

Í skýrslunni kemur einnig fram að sölu­tími í­búða sé enn mjög stuttur. Í nóvember var meðal­sölu­tími í­búða 39,2 dagar sem er lítil­lega meira en í met­mánuðinum á undan þegar meðal­sölu­tími mældist 36,8 dagar. Á lands­byggðinni var hins vegar slegið nýtt met þar sem meðal­sölu­tíminn mældist 56,4 dagar en hafði verið 61,4 dagar í októ­ber.

Meðal­kaup­verð í­búða á landinu var 58,5 milljónir króna í nóvember saman­borið við 50,8 milljónir króna í nóvember árið áður. Á höfuð­borgar­svæðinu var meðal­kaup­verð 67,6 m.kr. en þar af var það 58 milljónir króna fyrir í­búðir í fjöl­býli og 98 milljónir króna fyrir sér­býli.

Árs­hækkun í­búða­verðs mældist 15,4% á landinu öllu í nóvember. Þá er þess getið í skýrslunni að bankarnir bjóða ekki lengur upp á lægstu ó­verð­tryggðu vextina þegar kemur að í­búða­lánum. Gildi og Líf­eyris­sjóður Verslunar­manna eru með lægstu ó­verð­tryggðu vextina á í­búða­lánum í dag.