Enn eitt metið féll á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu í nóvember þegar 43,6% allra seldra íbúða seldust yfir ásettu verði. Í október var þetta sama hlutfall 41,1% og árin 2018 til 2019 var það að jafnaði 7 til 15%.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en skýrslan inniheldur öll helstu tíðindi er varða fasteignamarkaðinn á Íslandi.
Það er víðar en á höfuðborgarsvæðinu sem met eru slegin því 26,9% íbúða hjá nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins seldust yfir ásettu verði í nóvember. Hlutfallið var tæp 17% í október og rúm 21% í september.
Í fyrsta sinn síðan sumarið 2016 var hærra hlutfall íbúða í fjölbýli sem seldist yfir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu eða 42,2% samanborið við 41,4% meðal sérbýla. Minni íbúðir, 0-2 herbergja, seldust í 49% tilfella yfir ásettu verði í nóvember en í október var hlutfallið 42%.
Í skýrslunni kemur einnig fram að sölutími íbúða sé enn mjög stuttur. Í nóvember var meðalsölutími íbúða 39,2 dagar sem er lítillega meira en í metmánuðinum á undan þegar meðalsölutími mældist 36,8 dagar. Á landsbyggðinni var hins vegar slegið nýtt met þar sem meðalsölutíminn mældist 56,4 dagar en hafði verið 61,4 dagar í október.
Meðalkaupverð íbúða á landinu var 58,5 milljónir króna í nóvember samanborið við 50,8 milljónir króna í nóvember árið áður. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalkaupverð 67,6 m.kr. en þar af var það 58 milljónir króna fyrir íbúðir í fjölbýli og 98 milljónir króna fyrir sérbýli.
Árshækkun íbúðaverðs mældist 15,4% á landinu öllu í nóvember. Þá er þess getið í skýrslunni að bankarnir bjóða ekki lengur upp á lægstu óverðtryggðu vextina þegar kemur að íbúðalánum. Gildi og Lífeyrissjóður Verslunarmanna eru með lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum í dag.