Aygo verður næsti bíll til að fá jepplingsnafnbótina hjá Toyota, en Toyota tilkynnti í vikunni að hann fengi nafnið Aygo X. X-ið er tilvitnun í Cross-nafnið hjá stóra bróður hans Yaris Cross. Ætlunin er að þessi nýi bíll leysi Aygo af hólmi og verði ódýrasti bíll merkisins, en Toyota áætlar að kynna bílinn strax í næsta mánuði. Óhætt er að segja að þetta sé djarft framtak hjá Toyota því að fáir framleiðendur hafa komið fram með jepplingsútgáfur í flokki minnstu smábílanna. Það er helst litlum framleiðendum eins og Daihatsu og Suzuki sem gengið hefur vel með hinn fjórhjóladrifna Ignis.

Stórar hjólskálar og 19 tommu felgur munu líklega minnka nokkuð með framleiðsluútgáfunni.

Aygo X verður byggður á sama GA-B undirvagni og Yaris Cross og fær því líklega þriggja strokka vél. Líklega verður hann ekki búinn tvinnbúnaði til að halda verði niðri en hugsanlega verða dýrari gerðir hans þannig búnar. Aygo X er örlítið stærri en núverandi Aygo, eða 3.700 mm að lengd og 1.500 mm á hæð. Hjólhaf eykst líka um 90 mm til að búa til meira rými aftur í bílnum. Þar sem bíllinn fær nýjan undirvagn mun tæknibúnaður hans breytast mikið frá Aygo-smábílnum. Hann getur jafnvel fengið sama 9 tommu snertiskjá og í nýjum Yaris Cross. Nýi bíllinn verður smíðaður í verksmiðju Toyota í Kolin í Tékklandi sem hingað til hefur smíðað Aygo ásamt systurbílum hans Peugeot 108 og Citroen C1. Þeir verða þó ekki með lengur þar sem Toyota hefur tekið verksmiðjuna í sínar hendur. Búast má við bílnum á markað næsta vor í fyrsta lagi.