Þrátt fyrir að Covid-19 smitum í samfélaginu fari ört fækkandi berast í hverri viku ein til tvær beiðnir um innlögn í endurhæfingu vegna sjúkdómsins á Reykjalund. Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, segir erfitt að segja til um hversu algeng langvinn eftirköst Covid-19 séu en að þau geti valdið fólki miklum óþægindum.

„Það hefur kannski enginn rannsakað það sérstaklega hér hversu útbreitt þetta er,“ segir Stefán. „Það er algengt að fólk sé lengi að jafna sig eftir veirusýkingar en þarna eru einkenni sem eru langvinnari og fjölbreyttari en vanalega,“ bætir hann við.

„Orkan bara dugir ekki í vinnudaginn,“

„Það sem fólki finnst alvarlegast og veldur hvað mestum óþægindum er orkuleysið sem við höfum heyrt um og það sem kallað er heilaþoka. Það er þegar hugsunin verður hægari og óskýrari og minnið er ekki eins og það var,“ segir Stefán.

Þá segir hann þau sem upplifa langvinn einkenni Covid einnig þjást af mikilli andlegri og líkamlegri þreytu. „Orkan bara dugir ekki í vinnudaginn,“ segir Stefán.

Spurður hvers vegna einkenni geti verið svo langvinn og hvort til sé einhver lausn segir Stefán ekki komin svör við öllum spurningum þar sem kórónaveiran sé enn ný af nálinni, þó séu ýmsar kenningar á lofti.

„Við fórum í að gera rannsókn hér á Reykjalundi á hluta af þessum hópi. Lögðum fyrir spurningalista, líkamleg próf og mælingar við innlögn og svo aftur við útskrift eftir sex vikna meðferð. Núna erum við að klára þriðju mælinguna, sex mánuðum eftir útskrift, og erum spennt að sjá niðurstöðuna og hvort þarna séu einhverjar vísbendingar um það hvað hjálpar,“ segir Stefán.

Rýrnun á heila vegna Covid

Í byrjun mars voru birtar niðurstöður stórrar breskrar rannsóknar og sýndu þær rýrnun á heila einstaklinga sem fengið höfðu Covid í samanburði við einstaklinga sem ekki höfðu fengið sjúkdóminn.

„Rýrnunin var upp á 0,2 til 2 prósent, minnir mig, og menn sáu breytingar á svæðum lyktarskyns og svæðum sem hafa með minni að gera. Nú er verið að rannsaka þetta betur til að sjá hvort breytingarnar gangi til baka,“ segir Stefán.

Hann segir vel hafa gengið á Reykjalundi í faraldrinum þrátt fyrir að biðlistar hafi lengst. Sjúkrahúsið hafi verið vel mannað og vel hafi gengið að sinna einstaklingum með langvinn Covid-einkenni.

Enn berist beiðnir um innlagnir en þær séu ekki fleiri en hægt sé að sinna. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir stóran hóp fólks leita til heilsugæslunnar vegna langvinnra einkenna Covid.

„Það er töluvert mikið um að fólk komi til okkar vegna heilaþoku og orkuleysis. Við athugum þá með rannsóknum hvort það sé eitthvað alvarlegt, sendum fólk til dæmis í myndatöku,“ segir Óskar.

Þá segir hann algengt að fólk sé hrætt um að einkenni verði enn þrálátari en að ýmsar leiðir séu til að hjálpa fólki að líða betur. „Ef fólk er með astmaeinkenni notum við til dæmis púst og svo er þetta alltaf spurning um það hvenær fólk ætti að fara aftur af stað, reyna á sig og svona,“ segir Óskar.