Embætti landlæknis bárust 190 kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu á árinu 2021. Þetta er hækkun um 15 prósent frá árinu áður, sem var einnig metár með 165 kvörtunum.

Eftir að lög voru sett um landlæknisembættið árið 2007 hafa kvartanir orðið sífellt stærri þáttur í starfseminni. Fréttablaðið fjallaði um mikla fjölgun kvartana fyrir rúmu ári.

Þá stefndi Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, að því að gera kvörtunarheimildir og málsmeðferð einfaldari og skýrari með lagabreytingum. Embætti landlæknis kvartaði undan kostnaði vegna sérfræðiálita, sem hafði hækkað úr 18,7 milljónum í 27,3.

Umrætt frumvarp hefur ekki enn komið fram og er ekki á þingmálaskrá Willums Þórs Þórssonar, núverandi heilbrigðisráðherra.

Kvörtun er hægt að senda inn allt að tíu árum eftir atvik og málsmeðferðartíminn hefur verið allt að tvö ár. Starfsfólki heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna óvænt atvik, eins og andlát í kjölfar byltu, alvarlega fylgikvilla í kjölfar aðgerða og sjálfsvíg til landlæknis. Flest tilkynnt atvik eiga sér stað á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum.