Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 lauk formlega í Glasgow í Skotlandi í gær. Samningaviðræður milli þeirra tæplega 200 ríkja sem tóku þátt í henni gengu afar illa og hefur lokayfirlýsing ráðstefnunnar ekki enn verið gefin út.

Öll ríkin þurfa að samþykkja yfirlýsinguna sem gerir samningaviðræðurnar afar snúnar. Á loftslagsráðstefnunni í Madríd árið 2019 stóðu samningaviðræður tveimur dögum lengur en til stóð.

Ræða loftslagsráðherra Túvalú, Seve Paeniu, á blaðamannafundi í gær, vakti mikla athygli. Þar sagði hann að land sitt væri „bókstaflega að sökkva“ af völdum loftslagsbreytinga. „Þetta er spurning upp á líf og dauða fyrir mörg okkar og við sárbiðjum um að Glasgow verði úrslitastundin. Okkur má ekki mistakast.“

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, lýsti því yfir á fimmtudaginn að samninganefndir þyrftu að koma sér saman um harðari aðgerðir til að bjarga því sem bjargað verði.

Helst er deilt um ríkisstyrki til framleiðslu eldsneytis með jarðefnaeldsneyti, markmið í loftslagsaðgerðum og fjármögnun loftslagsaðgerða, einkum í þróunarríkjum. John Kerry, erindreki Bandaríkjanna í loftslagsmálum, sagði í gær að slíkir styrkir væru „skilgreiningin á vitfirringu“.

Með því væru ríki heims einungis að auka vandann, en notkun jarðefnaeldsneytis er stærsti orsakavaldur loftslagsbreytinga.

Samkvæmt útreikningum Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna nema styrkir til framleiðslu jarðefnaeldsneytis 423 milljörðum dollara á ári á heimsvísu. Þetta er um fjórföld sú upphæð sem þarf til að aðstoða þróunarríki við að takast á við loftslagsbreytingar.

Uppkast að yfirlýsingunni var birt í gær. Þar eru ríki heims hvött til að hraða orkuskiptum og hætta ríkisstyrkjum til jarðefnaeldsneytis. Olíuframleiðendur á borð við Rússland og Sádí-Arabíu hafa barist hart gegn því að minnst sé á jarðefnaeldsneyti í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar og þykir nokkur möguleiki á því að þeim verði framgengt. Orðalag varðandi jarðefnaeldsneyti hefur verið mildað talsvert frá fyrri uppköstum.

Í uppkastinu segir enn fremur að tvöfalda þurfi það fjármagn sem þróunarríkjum er lagt til, fyrir árið 2025. Þar segir að „það sé afar sorglegt“ að þróuð ríki hafi ekki staðið við fyrri skuldbindingar um að leggja þróunarríkjum til 100 milljarða dollara á ári til loftslagsaðgerða.

Ríki á norðurhveli jarðar hafa byggt upp samfélög sín með notkun jarðefnaeldsneytis og dælt mengandi efnum út í andrúmsloftið. Þróunarríki hafa krafist þess að þau bæti þeim upp að geta ekki gert slíkt hið sama.

Samkvæmt núverandi uppkasti eru samningsríki hvött til að uppfæra loftslagsmarkmið sín fyrir árið 2030 ekki seinna en í lok næsta árs. Þar segir enn fremur að hægt væri að draga mjög úr áhrifum loftslagsbreytinga ef hitastig jarðar hækkar ekki umfram 1,5 gráður frá því sem var fyrir iðnbyltinguna. Nú þegar hefur það hækkað um 1,1 gráðu.

Bandaríkin og Kína gerðu með sér samkomulag í vikunni um samstarf í loftslagsaðgerðum, sem þótti skýr skilaboð til annarra ríkja um að grípa til umfangsmikilla aðgerða, en þau eru mestu mengunarríki heims. Samkvæmt því ætla þau að draga mikið úr mengun á þessum áratug og skuldbatt Kína sig til að draga úr útblæstri metans, í fyrsta sinn.

Leiðtogar meira en hundrað ríkja, þar á meðal Brasilíu, Rússlands, Kína og Bandaríkjanna, hafa lofað því að binda enda á skógareyðingu fyrir árið 2030. Í samningsríkjunum má finna um 85 prósent skóglendis jarðar, en skógar gegna lykilhlutverki í að binda kolefni og draga úr hlýnun loftslags.