Þrjár stórar breytingar verða gerðar á sótt­varna­reglum á Ís­landi í næstu viku, þann 18. nóvember, þegar ný reglugerð tekur gildi.

Hár­greiðslu­stofum verður heimilt að opna, og öðrum ein­yrkjum, svo sem nuddurum, rökurum og snyrti­fræðingum. Þá verða í öðru lagi í­þróttir barna, með og án snertingar heimilar og í þriðja lagi verða rýmkaðar sam­komu­tak­markanir í fram­halds­skólum.

Fyrst var greint frá á Vísir.is en Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, til­kynnti þetta á tröppum ráð­herra­bú­staðsins í Tjarnar­götu fyrr í dag, eftir ríkisstjórnarfund.

Breytingarnar taka gildi þann 18. nóvember og eru var­færnar en tekið er fram í til­kynningu frá heil­brigðis­ráð­herra, sem send var út kjölfarið á ríkisstjórnarfundi, að gert sé ráð fyrir því að hægt verði að draga enn frekar úr sam­komu­tak­mörkunum í byrjun desember. Þær reglur sem kynntar voru í dag gilda til 2. desember.

Helstu breytingar sem kynntar voru í dag eru að í­þrótta-, æsku­lýðs- og tóm­stunda­starf barna í leik- og grunn­skólum verður heimilt á ný. Í fram­halds­skólum verða fjölda­mörk aukin í 25 úr 10 og að hægt verður að hefja ýmsa þjónustu­starf­semi sem krefst snertingar eða mikillar nándar eins og hár­greiðslu, nudd og aðra snyrtingu. Þar gildir grímuskylda og mega aðeins vera 10 viðskiptavinir vera inni í einu.

Breytingar taka gildi 18. nóvember

Al­mennar fjölda­tak­markanir miðast á­fram við 10 manns og enn er tveggja metra reglan í gildi. Breytingarnar eru í miklu sam­ræmi við til­lögur sótt­varna­læknis til ráð­herra.

Í minnis­blaði sótt­varna­læknis til ráð­herra leggur hann til að hægt verði farið í allar til­slakanir á næstunni. Breytingarnar sem taka gildi mið­viku­daginn 18. nóvember eru eftir­farandi:

  • Starf­semi og þjónusta sem krefst snertingar milli fólks verður leyfð með þeim skil­yrðum að notast sé við and­lits­grímur. Þetta á við um s.s. hár­greiðslu­stofur, nudd­stofur, öku- og flug­kennslu og sam­bæri­lega starf­semi. Há­marks­fjöldi við­skipta­vina á sama tíma er 10 manns.
  • Æfingar, í­þrótta­starf, æsku­lýðs- og tóm­stunda­starf barna á leik- og grunn­skóla­aldri verður heimilt jafnt inni og úti. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar tak­markanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjölda­mörk í hverju rými fara eftir reglu­gerð um tak­markanir á skóla­starfi. Leik­skóla­börn og börn í 1.–4. bekk grunn­skóla mega vera 50 saman að há­marki en nem­endur í 5.–10. bekk að há­marki 25 saman.
  • Í skóla­starfi á fram­halds­skóla­stigi mega nem­endur og starfs­menn vera að há­marki 25 í hverju rými í stað 10 áður en ber að nota and­lits­grímur sé ekki unnt að halda 2 metra fjar­lægð.
  • Veitt er undan­þágu frá grímu­skyldu þeim sem ekki geta notað grímur, t.d. af heilsu­fars­á­stæðum eða ef við­komandi skortir þroska eða skilning til að bera grímu. Þeir sem fengið hafa CO­VID-19 eru einnig undan­þegnir grímu­skyldu geti þeir sýnt gilt vott­orð þess efnis.
  • Breytingar á reglu­gerðum um tak­markanir á sam­komum og skóla­haldi vegna far­sóttar taka gildi 18. nóvember. Gildis­tími reglu­gerðanna er til og með 1. desember næst­komandi.

Hægt er að kynna sér til­kynningu heil­brigðis­ráðu­neytis og minnis­blað sótt­varna­læknis nánar hér.

Fréttin hefur verið uppfærð samkvæmt tilkynningu heilbrigðisráðuneytis klukkan 14:57.