„Við kynntumst árið 2014. Ég hafði komið hingað frá New York til að aðstoða vin við uppbyggingu hótels og veitingastaðar á Egilsstöðum,“ svarar Benjamin þegar hann er inntur eftir upphafi sambandsins.

„Benjamin bauð mér á stefnumót sem ég verð nú að segja að var ekkert sérstakt því sumir voru of timbraðir frá deginum áður,“ segir Hemmi og lítur stríðnislega á eiginmanninn. „En það einfaldlega small eitthvað á milli okkar og við höfum eiginlega verið saman frá þessu fyrsta stefnumóti. Þetta átti bara að vera enn eitt stefnumót Íslendings og útlendings og enda þar,“ segir Hermann.

„Já, það má segja að þetta hafi verið einnar nætur gaman sem fór illa,“ bætir Benjamin við í léttum tón.

Úr varð að Benjamin flutti hingað til lands þar sem Hermann hafði þegar byggt upp fyrirtæki sitt en hann á og rekur Modus hárstofu og vefverslunina Hárvörur.is.

„Ég féll algjörlega fyrir landinu, rólegu tempóinu og nálægðinni við náttúruna.“ Benjamin kennir nútímadans og danssmíði við Listdansskóla Íslands og aðstoðar Hermann við rekstur fyrirtækisins.


Lærum hvor af öðrum


„Hann sér um praktísku hliðina og heldur mér á jörðinni,“ segir Hermann og Benjamin bætir við: „Við erum gott teymi, hann er mjög skapandi og það er mitt hlutverk að láta hugmyndir hans verða að veruleika og sjá til þess að úr þeim verði einhver gróði. Sjálfur er ég líklega of rúðustrikaður en Hermann minnir mig á að vera stundum svolítið hvatvís. En við lærum hvor af öðrum og mér finnst það ein fegurðin í okkar sambandi.“

„Benjamin er frábær kokkur,“ segir Hermann og viðurkennir að sjálfur geri hann helst ekkert í eldhúsinu. „Við höfum það fyrir reglu að elda eitthvað fínt og borða tveir saman allavega einu sinni í mánuði. Þá eldar hann og ég legg á borð og við klæðum okkur upp fyrir kvöldverðinn. Annars er það regla að borða við matarborðið, geyma símana og spila Skippo.“

Sonurinn Valur Sturla er tæplega sjö mánaða gamall og augljóst að feðurnir eru þegar farnir að huga að uppeldinu.

„Ég held það sé líka gott fyrir Val að læra að við setjumst niður við matarborðið og hann sjái okkur borða fjölbreyttan mat. Í hraða hversdagsins er fólk farið að borða meira rusl en mig langar að kenna honum mikilvægi þess að borða fjölbreytt og njóta matarins.“

Giftu sig fyrst og deituðu svo


Þeir Hermann og Benjamin giftu sig árið 2015, aðeins nokkrum mánuðum eftir að þeir kynntust enda lá Benjamin á að fá landvistarleyfi. „Við höfum stundum grínast með að við höfum gift okkur og svo farið að „deita“,“ segir Benjamin og hlær.

„Ég held að það sé langbesta leiðin,“ bætir Hermann við. „Þá þarf maður að hafa fókusinn á réttum stað og láta þetta ganga upp. Ég var auðvitað ákveðinn í að láta sambandið ganga en daginn sem ég giftist honum var ég alveg viss um að ég elskaði hann. Við efuðumst aldrei og það er eins að við höfum verið leiddir saman.“

Þegar talið berst að barneignum og hvort þær hafi alltaf verið á dagskránni verður Benjamin fyrri til svars.

„Kynslóðin á undan okkur sparkaði upp hurðinni, okkar kynslóð gekk svo í gegn og er að reyna að halda dyrunum opnum fyrir þá sem á eftir koma. Við erum líklega síðasti hópurinn sem ólst upp við skilaboðin um að það væri ekki í lagi að vera eins og maður er. Að við myndum aldrei eignast börn og fjölskyldu og þar fram eftir götunum. Sem betur fer eru flest vestræn samfélög í dag sammála um að fólk eigi skilið að elska þá sem það vill og eignast fjölskyldu.“


Tómarúmið í hjartanu stækkaði


Hermann biður eiginmann sig um leyfi til að færa samtalið yfir á íslensku en hingað til hefur það farið fram á ensku, móðurmáli Benjamin.

„Ef samfélagið sendir þér sífellt neikvæð skilaboð ferðu að bæla niður eðlilegar tilfinningar eins og löngunina til að eignast börn og fjölskyldu,“ segir Hermann minnugur þess að hafa á sínum yngri árum svarað spurningum um hvort hann langaði að eignast börn neitandi.

„Ef samfélagið sendir þér sífellt neikvæð skilaboð ferðu að bæla niður eðlilegar tilfinningar eins og löngunina til að eignast börn og fjölskyldu,“

„Ekki vegna þess að mig raunverulega langaði það ekki heldur hafði ég fengið þessi skilaboð. Þegar ég fór að eldast fann ég þó fyrir tómarúmi í hjarta mínu sem sífellt stækkaði. Í fyrstu áttaði ég mig ekki á því hvað það var en svo fann ég einn daginn að það var löngunin til að eignast barn.“

Hermann bendir á að réttindabarátta samkynhneigðra sé langt komin hér á landi en enn sé erfitt fyrir samkynhneigða karla að eignast börn, mikið erfiðara en fyrir samkynhneigðar konur.

„Þær hafa verið langt á undan okkur í þessu ferli. Þær gátu pantað sér sæði og fyrir mörgum árum fóru þær hreinlega niður í bæ og létu barna sig en sem betur fer tókst að fræða fólk um að slíkar aðferðir væru siðferðislega rangar.“

Ekki bjóðandi litlu barni


Hermann útskýrir að erlendis sé algengt að rígur sé á milli homma og lesbía en hér á landi hafi undanfarin ár tekist að mynda góða samstöðu á milli hópanna.

„Erlendir aðilar sem koma hingað til lands skilja ekkert hvernig gengur að allir þessir hópar geti skemmt sér þétt saman á einum stað,“ segir Hermann og telur smæð samfélagsins hér hafa frekar leitt hópana saman. „Við getum ekkert verið með einhvern ríg hér.“

Hermann segir lesbíur lengi vel hafa haft forskot á homma þegar kemur að barneignum, af augljósum líffræðilegum ástæðum en nú aftur á móti sé mikil samstaða í hópnum um að hjálpast að við barneignir.

Þeir Benjamin og Hermann fóru þá leið og eignuðust son sinn með lesbíu sem jafnframt var í barneignarhugleiðingum en segja slíka samninga geta verið varasama.

„Að mínu mati á fólk ekki að gera þetta. Það er ekki bjóðandi litlu barni að lenda í þessu né fjölskyldunum í kring. Tengslamyndunin fyrsta árið er í molum og það er ekkert sem heldur utan um okkur.

Það hafa fjölmargir gert þetta og flestir segja að allt gangi vel en ef þú sest niður og horfir í augun á fólkinu þá kemst maður að ýmsu,“ segir Hermann en þeir eru sem feður ósáttir við hvernig barnsmóðir þeirra hefur að þeirra sögn svikið umsamda umgengni og fyrirkomulag frá fæðingu sonar þeirra og eina leiðin fyrir þá sé nú að reka forsjármál fyrir dómstólum.

„Ef fólk býr ekki saman þegar barn kemur í heiminn fær móðirin sjálfkrafa öll réttindi,“ segir Hermann og telur það stangast á við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Barnasáttmálinn er mjög skýr og við erum aðilar að honum. Þar er skýrt að hagsmunir barna en ekki foreldra gangi fyrir. Ef löggjafinn sæi til þess að foreldrar væru jafnir frá upphafi kæmu allir jafnir að borðinu til að semja um umgengni og uppeldi barnsins.“


Ætluðu að búa saman fyrsta árið

En bökkum nokkur ár aftur í tímann, þegar upp kemur hugmyndin að búa til barn. Hermann hafði þekkt barnsmóður þeirra í mörg ár og fór hún með honum í vinnuferð til Akureyrar þar sem upp spannst samtal sem átti eftir að breyta lífi þeirra allra.

„Á þessum tíma höfðum við Benjamin talað mikið um barneignir og vorum ákveðnir í að taka barn í fóstur. Ég sagði henni frá því og hún stakk þá upp á að við tvö eignuðumst einfaldlega barn saman. Ég útskýrði þá fyrir henni að vegna veikinda og lyfjameðferðar á yngri árum gæti ég ekki eignast börn og kom hún þá með hugmyndina að því að eignast barn með Benjamin, manninum mínum.“

„Á þessum tíma höfðum við Benjamin talað mikið um barneignir og vorum ákveðnir í að taka barn í fóstur."

Hermann segist hafa orðið spenntur fyrir hugmyndinni og rætt hana við Benjamin sem sjálfur þekkti konuna ekki, og í framhaldi hittust þau þrjú og fóru yfir málin.

„Við spurðum hana hvernig hún sæi þetta fyrir sér ef af yrði og hún segist vilja skipta allri umgengni jafnt og óskaði eftir að búa hjá okkur á meðan meðgöngu stæði og þar til barnið yrði eins árs,“ segir Hermann.

„Okkur fannst hugmyndin um að verja fyrsta árinu saman góð enda vita allir að sá tími tekur á og við gætum þannig öll hjálpast að,“ segir Benjamin.

Þeir Hermann og Benjamin fóru því að leita að hentugu húsnæði og fundu hús með risíbúð þar sem barnsmóðirin gæti búið og þeir á neðri hæðinni.

„Okkur fannst það betri hugmynd en að við værum öll saman í einni íbúð, ég var hræddur um að það myndi enda illa,“ segir Hermann og þannig bjuggu þau, verðandi foreldrarnir í átta mánuði.


Flutti út án fyrirvara


Barnið var búið til með þekktri heimatilbúinni aðferð þar sem sæði er komið fyrir í sprautu og sér móðirin sjálf um að koma því upp.

„En þremur víkum eftir að hún varð barnshafandi flutti hún út án nokkurs fyrirvara,“ segir Hermann.

Samskiptin höfðu farið versnandi og að sögn feðranna hafði móðirin færst töluvert frá upprunalegum hugmyndum um fyrirkomulag og umgengni og dró það sífellt að skrifa undir umgengnissamning.

Feðurnir réðu því ráðgjafa til að hitta alla þrjá foreldra og reyna að koma á sáttum en eftir nokkurra vikna fundi varð útséð með að það tækist ekki. Með því að búa ekki lengur undir sama þaki var ljóst að ekki yrði úr hugmyndinni með fyrsta árið eins og upphaflega var gengið út frá en fleira virtist hafa breyst, eins og hvenær væri stefnt á að barnið myndi fyrst dvelja yfir nótt hjá feðrunum.


Skert tengslamyndun


Sonurinn, Valur Sturla fæddist 7. nóvember síðastliðinn en mánuðirnir á undan einkenndust af ósætti foreldranna og tilraunum til sátta. Þar upplifðu feðurnir að ákvarðanir væru teknar á forsendum móðurinnar og eins væri upplýsingagjöf varðandi barnið einskorðuð við það sem móðirin vildi gefa þeim upp.

„Það hefði mátt koma í veg fyrir mikil særindi og andlegt ofbeldi sem við höfum orðið fyrir ef löggjöfin væri einfaldlega skýr og barnið fengi fullan aðgang að báðum foreldrum frá fæðingu,“ segir Hermann sem hefði viljað að allir aðilar fengju ráðgjöf í gegnum Sýslumannsembættið frá fæðingu barnsins.

„Það hefði mátt koma í veg fyrir mikil særindi og andlegt ofbeldi sem við höfum orðið fyrir ef löggjöfin væri einfaldlega skýr og barnið fengi fullan aðgang að báðum foreldrum frá fæðingu.“

„En eins og staðan er þurfum við að fara í forsjármál við hana með tilheyrandi kostnaði og tíma. Hún aftur á móti fær gjafsókn frá ríkinu þar sem hún er einstæð móðir. Ef ferlið væri þannig að sáttaferli færi af stað strax fyrsta mánuðinn væru börnin betur sett. Þess í stað skerðist tengslamyndunin enda getur móðirin dregið allt ferlið á langinn,“ segir Hermann.

„Við erum sammála um að barn þarf á móður sinni að halda í upphafi en okkur þykir mikilvægt að fá að sjá barnið daglega. Nú hefur móðirin sett reglu um að við megum sjá son okkar fimm daga vikunnar í þrjár klukkustundir í senn. Við þurfum ítrekað að sækja hann í úthverfi til foreldra hennar á meðan við lögðum áherslu á að búa sem næst móður en sjaldnast sækjum við hann þangað, á lögheimili hans.

Þetta gerir það að verkum að um 40 mínútur af samverutíma okkar fer í akstur fram og til baka og þá standa aðeins eftir rúmar tvær klukkustundir til tengslamyndunar við okkur og okkar fólk,“ segir Hermann og Benjamin blandar sér inn í frásögnina:

„Við gerðum þetta með manneskju sem við héldum að við gætum treyst. Samkvæmt lögum á barn rétt á jafnri umgengni við báða foreldra. Því finnst mér það skjóta skökku við að gengið sé út frá því að ef foreldrar eru ekki giftir eða í sambúð fari öll réttindi til móðurinnar.


Er ekki einstæð móðir


Ég skil að á einhverjum tímapunkti hafi það verið rétta viðmiðið en við verðum þó að spyrja okkur spurninga um það hvers vegna þetta er enn svona þegar fjölskyldugerðir eru orðnar svo margvíslegar. Þegar ósætti kemur upp vegna smámuna hefur móðirin rétt á að labba í burtu með barnið þitt, jafnvel þó að þú viljir taka fullan þátt í uppeldi þess.

Mér finnst það undarleg staða í svo litlu landi þar sem barneignir utan hjónabands eru svo algengar. Að mínu mati ætti að ganga út frá því frá upphafi að réttindum og forsjá sé skipt jafnt milli foreldra og sýslumaður myndi skera úr ef ósætti kæmi upp.

Eins spyr ég mig hver skilgreiningin á einstæðri móður er. Barnsmóðir okkar er ekki einstæð móðir þó hún nýti öll slík fríðindi sér í vil. Hún gerði þetta ekki ein, þetta var allt ákveðið fyrir fram og hún var ekki yfirgefin af okkur,“ segir Benja­min með áherslu.

Eins spyr ég mig hver skilgreiningin á einstæðri móður er. Barnsmóðir okkar er ekki einstæð móðir þó hún nýti öll slík fríðindi sér í vil. Hún gerði þetta ekki ein, þetta var allt ákveðið fyrir fram og hún var ekki yfirgefin af okkur."

Þeir Benjamin og Hermann höfðu ákveðið að taka barn í fóstur þegar upp kom önnur hugmynd. Fréttablaðið/Ernir

Móðirin fær allan rétt


Þeir benda á að þó breyting á barnalögum þar sem skipt búseta barns er leyfð sé mikið framfaraskref, hefði mátt ganga skrefi lengra enda sé enn gengið út frá góðu samkomulagi foreldra.

„Jafnvel við Hermann erum oft ósammála og þegar kemur að barnauppeldi verða alltaf óþægileg umræðuefni sem þarf að taka á. Við verðum öll með ólíkar skoðanir.“

Upphaflega hugmyndin var að aðlögun að viku og viku fyrirkomulagi hæfist við sex mánaða aldur en svo yrði það reglan frá 11 til 12 mánaða aldri. Feðurnir segja að móðir hafi sífellt dregið að skrifa undir samninginn og nú sé svo komið að þeir verði að sætta sig við þá skertu umgengni sem hér fyrr er lýst.

„Það bjóst enginn við að þetta myndi gerast á einni nóttu enda er hann svo lítill. Þetta þarf þó að gerast og betra að venja hann við rólega,“ segir Benjamin.

„Það bjóst enginn við að þetta myndi gerast á einni nóttu enda er hann svo lítill. Þetta þarf þó að gerast og betra að venja hann við rólega."

„Kerfið veitir móðurinni allan rétt og faðirinn þarf að berjast fyrir því að fá jafnan rétt jafnvel þótt lögin kveði á um hann. Margar mæður líta einfaldlega á þetta sem sinn persónulega rétt og af góðmennsku sinni leyfi þær föðurnum að taka þátt. En í raunveruleikanum er um rétt barnsins að ræða,“ segir hann með áherslu.


Allir drulluhræddir


„Það er engri manneskju heilbrigt að lenda í þessu,“ segir Hermann og það er augljóst að umræðan tekur á. „Það er alveg jafn erfitt að sækja hann og skila honum.“

Málið er eðlilega flókið og þó að í raun sé barnið getið í hjónabandi er Hermann ekki líffræðilegur faðir og því réttindalaus með öllu.

„Þú getur ímyndað þér hvernig réttindaleysi mitt skemmir fyrir tengslamyndun fjölskyldu minnar við barnið. Það særir rosalega að horfa upp á fjölskyldu mína passa sig, ég sé alveg hvernig þau halda á hinum frændsystkinum mínum,“ segir hann. „Það er svo ósanngjarnt gagnvart honum. Það eru allir drulluhræddir,“ segir Hermann og bendir á að þó fjölskyldan verði alltaf tengd drengnum í gegnum hjónaband þeirra Benjamins þá hafi staða hans og téð ósætti áhrif.

Vikulega fara þeir þó með soninn í matarboð til foreldra hans og vill hann þannig gæta þess að hann tengist þeim. „Ég vil ekki að hann verði skíthræddur heima hjá besta fólki í heimi sem er mamma mín og pabbi.“

Benjamin, sem hlýtt hefur á eiginmann sinn, bætir við að lokum með ákveðnum uppgjafartón; „Þvílík sóun á almannafé að við þurfum að fara þessa leið með mál sem mun enda alveg eins og við ætluðum að hafa það í upphafi.“

En nú þarf hann að sækja fyrir dómstólum fulla forsjá yfir syni sínum til þess að eiga von á að fá skipta forsjá með barnsmóður sinni.

Genetísk og lagaleg tengsl ekki aðalatriði í fjölskyldu

Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna 78 segist þekkja þónokkur dæmi þess að samkynhneigt fólk eignist börn saman á svipaðan hátt og um ræðir í grein þessari.

„Ég held að það hafi færst í aukana á undanförnum árum. Þetta er ein leið til að eignast börn, þá sérstaklega fyrir pör tveggja karla, en þetta er þó veruleiki sem hvergi er tekið tillit til í kerfinu okkar,“ útskýrir Þorbjörg og á þá við að ekki sé hægt að skrá fleiri en tvo foreldra barns.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna 78 segist þekkja þónokkur dæmi þess að samkynhneigt fólk eignist börn saman á svipaðan hátt og um ræðir í grein þessari. Fréttablaðið /Stefán Karlsson

„Ekki er hægt að skrá fleiri frá upphafi en bara líffræðilega foreldra. Fólk er að stofna til fjölskyldu saman og lagaleg staða verður að vera tryggð. Það er ýmislegt sem getur komið upp þar sem réttindi barnsins gagnvart foreldri eru ekki tryggð til að mynda þegar kemur að erfðarétti eða flutningi milli landa.

Sem dæmi mætti nefna að ef kemur til skilnaðar hjá hommapari og annar aðilinn er skráður sem faðir barnsins hefur hinn engan rétt til barnsins sem þeir ákváðu að ala upp saman sem er augljóst brot á rétti barnsins. Þetta getur verið rosalega flókið.

Þessi umræða hefur átt sér stað í Hollandi einu landa að mínu viti. Þar var gerð mörg hundruð blaðsíðna skýrsla og þó á endanum hafi þetta mál verið drepið er þessi umræða að fara af stað í Evrópu,“ segir Þorbjörg en Samtökin sendu umsögn til Alþingis þegar unnið var að nýju fæðingarorlofsfrumvarpi þar sem bent var á að fjölskyldur væru mun fjölbreyttari en ráða mætti af frumvarpinu. Í umsögninni segir meðal annars:

„Mörg börn eiga fleiri en tvo foreldra og rétt væri að löggjafinn tæki mið af því. Fjölskyldur hinsegin fólks eru t.d. oft samsettar frá upphafi, t.a.m. börn sem verða til þegar samkynja par og einstaklingur stofna fjölskyldu saman, eða þegar tvö samkynja pör gera það sama.“

Hagsmunir barnanna undir

„Í barnalögum er gert ráð fyrir því að þegar tvær konur eignast barn saman sé það gert á tæknifrjóvgunarstofnun,“ segir Þorbjörg sem þó þekkir þá leið sem farin var í tilfellinu sem hér er fjallað um.

„Lögin ná ekki yfir allar leiðir sem hinsegin fólk fer til að eignast börn og ef fólk er búið að ákveða að eignast barn saman er mjög skiljanlegt að það finni ekki ástæðu til að flækja málin og auka kostnað með því að fara í gegnum ákveðna stofnun.“

Þorbjörg segist gera ráð fyrir því að mikinn undirbúning þurfi til þess að eignast barn á þennan hátt. „Það þarf allt að vera á hreinu og því er bagalegt að lagalega staðan sé svona óviss og það halli svo á ákveðna aðila í málinu.

Við innan hinsegin samfélagsins vitum sem er að genetísk og lagaleg tengsl er ekki það sem skiptir máli þegar við stofnum til fjölskyldu. Allt kerfið er áratugum á eftir í hugsun. Þó ég skilji að kerfisbreytingar gerist hægt þá er mikilvægt að hagsmunir barns séu tryggðir. Þeir eru fyrst og fremst undir.