Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, segir enga sameiginlega fundi í kjaraviðræðum boðaða í dag. Hann hafi þó átt mjög ítarleg samtöl í gær við alla þá sem sitja við samningaborðið, formenn allra stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins.
„Mín niðurstaða eftir þau samtöl var að það þyrfti að fara fram frekari undirbúningsvinna áður en það væri skynsamlegt að setjast niður á sameiginlegan fund,“ segir Aðalsteinn.
Sú undirbúningsvinna hafi hafist um helgina og haldi áfram í dag.
„Ég verð bara að sjá hvernig henni fram vindur og byggja mína ákvörðun um næsta sameiginlega fund á því. Stundum er tímanum betur varið í undirbúning og innri fundi í heimahögum frekar en á sameiginlegum fundi, og þetta er einn af þeim dögum,“ segir Aðalsteinn.