Ekki er óalgengt að kaupendur þurfi að bíða í hálft ár eða lengur eftir nýjum bíl vegna þess hve hægt gengur að framleiða þá. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir eftirspurn eftir nýjum bílum langt umfram framleiðslugetu um þessar mundir.

„Við erum að selja svona tvö til þrjú hundruð bíla á mánuði í venjulegu árferði og viljum þá eiga svona 150 bíla á lager. Í síðustu viku gerðist það hins vegar að við áttum ekki einn einasta óseldan bíl á lager. Ég man ekki eftir að það hafi gerst í 60 ára sögu fyrirtækisins.“

Þó að þetta sé engin óskastaða telur Egill að það hjálpi til hve mikinn skilning fólk hefur á stöðunni. Hann segir kauphegðun fólks vera að breytast hratt þegar kemur að nýjum bílum.

„Sala nýrra bíla fer miklu meira fram á netinu í dag. En svo eru líka fleiri bílar seldir í forsölu en áður. Hér áður fyrr vildi fólk ganga frá kaupum á nýjum bíl og keyra jafnvel burt á honum samdægurs. Í dag er fólk til í að bíða og hugsa lengra fram í tímann. Ég held að faraldurinn hafi kennt okkur heilmikið.“

En það eru fleiri þættir sem valda hræringum á markaði nýrra bíla um þessar mundir. Egill segir orkuskiptin frá hefðbundnum bílum yfir í rafbíla vera farin að lita alla þætti greinarinnar.

„Þetta eru líklega umfangsmestu tæknibreytingar sem bílabransinn hefur gengið í gegnum frá því að bíllinn var fundinn upp. Bæði hjá framleiðendum og söluaðilum eins og okkur. Pantanir benda til þess að hlutfall hreinna rafbíla verði komið í 60 til 70 prósent fyrir lok árs.“

Egill segir að þótt það sé spennandi að taka þátt í þessum öru breytingum sé mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim áskorunum sem fylgja.

„Við erum að ganga í gegnum þessa tæknibyltingu á sama tíma og bílaframleiðendur eru að berjast við tafir í framleiðslu. Það er vissulega áskorun. Sem dæmi þá er land eins og Kína, þar sem nær allar rafhlöður fyrir bíla eru framleiddar, enn að glíma við lokanir vegna heimsfaraldursins,“ segir Egill.