Yfir­völd í Bæjara­landi í Þýska­landi hafa á­kveðið að engir jóla­markaðir verði þar þessi jól vegna mikillar upp­sveiflu í Co­vid-far­aldrinum. Auk þess hefur verið komið á sam­komu­tak­mörkunum í öllum héruðum Bæjara­lands þar sem ný­gengi smita er yfir þúsund á hverja hundrað þúsund íbúa á viku­tíma­bili. Eins og staðan er ný­gengi svo mikið í átta héruðum.

Þar þurfa barir, skemmti­staðir og veitinga­staðir að loka, auk þess sem engin menningar- eða í­þrótta­starf­semi er heimil. Skólar verða þó á­fram opnir.

„Á­standið er afar, afar al­var­­legt og erfitt. Við erum með skýrt mark­mið: berjast gegn kórónu­veirunni, vernda borgara og vernda heil­brigðis­­kerfið“, sagði ríkis­­stjórinn Markus Söder við blaða­­menn í dag er hann greindi frá að­­gerðunum sam­kvæmt frétt Welt. „Að láta ekki bolu­­setja sig skapar raun­veru­­lega hættu. Á næsta ári þurfum við að skoða hvort tíma­bært sé að koma á skyldu­bólu­­setningu.“

Markus Söder er svart­sýnn þessa dagana vegna upp­sveiflu far­aldursins.
Fréttablaðið/Getty

Yfir­­völd í Bæjara­landi vilja koma á frekari tak­­mörkunum fyrir óbólu­­setta en ekkert hefur verið á­­kveðið í þeim efnum. Nú mega full­orðnir sem ekki eru bólu­­settir ekki fara í klippingu eða sækja há­­skóla. Þeir mega auk þess einungis hitta fimm ein­stak­linga í einu, úr tveimur fjöl­­skyldum að því er segir í frétt DW.

Ný­­gengi smita í Bæjara­landi öllu á viku­­tíma­bili er nú 625,3 á hverja hundrað þúsund íbúa sam­­kvæmt Robert Koch stofnuninni, sem heldur utan um Co­vid-töl­­fræði í Þýska­landi. Það er mun meira en í landinu öllu þar sem ný­­gengið er 340,7 sem er það mesta sem verið hefur. Til saman­burðar má nefna að ný­­gengi smita hér á landi, yfir tveggja vikna tíma­bili er 565,6. Í Þýska­landi er búið að full­bólu­setja 67,7 prósent þjóðarinnar.