Upplýsingar um að grímuklæddir einstaklingar hafi mætt í samkvæmi menntskælinga á Seltjarnarnesi í gær reyndust rangar.

Vísir greindi frá því í nótt að fjölmennt lið lögreglu hafi leyst upp bjórkvöld menntaskólanema laust eftir miðnætti í nótt. Samkvæmt heimildum Vísis hafi grímuklæddir einstaklingar mætt í samkvæmið með hnífa í leit að einstaklingi.

Vísir hefur nú uppfært frétt sína þar sem greint er frá því að upplýsingarnar hafi verið rangar. Varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki kannast við lýsingarnar.

„Upplýsingar sem Vísir taldi eftir heimildum sínum í fyrri útgáfu fréttarinnar hvað grímur og hnífa varðaði hafa því reynst rangar,“ segir jafnframt á vef Vísis.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var greint frá samkvæminu og að það hafi verið leyst upp sökum ölvunar og fjölda ungra gesta.

Lögreglan var með talsverðan viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur í gær eftir að skilaboð fóru á dreifingu manna á milli á samfélagsmiðlum í vikunni.

Í skilaboðunum var fólk meðal annars hvatt til að halda sig frá miðbænum um helgina vegna mögulegrar hefndarárás vegna stunguárásarinnar á Bankastræti Club síðustu helgi. Árásinni yrði mögulega beint að saklausum borgurum.