Flugfélagið Icelandair hefur ekki skráð eitt atvik í öryggisskýrslu sinni um óstýriláta farþega sem neita að bera grímu.

Þetta kemur fram í svari frá Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Fyrir helgi var farþegaþotu American Airlines snúið við í miðju flugi yfir Atlantshafi eftir að farþegi neitaði að setja upp grímu. Frá upphafi árs hefur félagið skráð 151 atvik sem tengjast óstýrilátum farþegum, af þeim tengdust 92 mál ágreinings vegna grímuskyldu um borð í flugvélum.

Aðspurð hversu mörg atvik hafi komið á borð Icelandair frá upphafi faraldurs vegna ósáttra farþega sem neita að bera grímu svarar Ásdís að heilt yfir hafi gengið vel að biðja farþega að bera grímu.

„Ekkert atvik hefur komið upp tengt grímuskyldu sem hefur verið þess eðlis að það hafi kallað á formlega skráningu í öryggisskýrslu sem óstýrlæti farþega,“ segir Ásdís.